Íslenskar, ekki finnskar

Elísa Viðarsdóttir og Hlín Eiríksdóttir fagna á Hlíðarenda í dag.
Elísa Viðarsdóttir og Hlín Eiríksdóttir fagna á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum fyrst og fremst ánægðar með að vera komnar áfram í næstu umferð,“ sagði Elísa Viðarsdóttir, bakvörður Vals, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn HJK frá Helsinki í 1. umferð Meistaradeildarinnar í knattspyrnu á Origo-vellinum á Hlíðarenda í dag.

„Það er alltaf jákvætt að halda markinu hreinu og skora þrjú mörk þannig að við erum sáttar eftir þennan leik. Við mættum mjög vel undirbúnar til leiks og vissum nokkurn vegin hvað við vorum að fara út í. Þetta er lið sem vill spila út frá markmanni og við áttum þess vegna von á því.

Á öllum klippunum sem við sáum með þeim reyndu þær að spila út frá aftasta manni, sama hvað bjátaði á hjá þeim. Líka undir mikilli pressu og þess vegna kom það okkur ekki á óvart að þær skildu gera það líka með vindinn í andlitið í íslenska haustveðrinu.

Þegar allt kemur alls ætluðum við okkur að kæfa þær strax frá fyrstu mínútu og okkur tókst það.“

Málfríður Anna Eiríksdóttir tekur á móti boltanum á Hlíðarenda.
Málfríður Anna Eiríksdóttir tekur á móti boltanum á Hlíðarenda. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki ákjósanlegar aðstæður

Elísa var í íslenska landsliðshópnum sem mætti Svíþjóð í Gautaborg í undankeppni EM hinn 27. október og þar sem hún og sex aðrar í hópnum þurftu að fara í sóttkví við komuna til landsins í síðustu viku og náði Valsliðið því aðeins tveimur æfingum saman fyrir leikinn.

„Þetta er ekki ákjósanlegar aðstæður, ég get alveg viðurkennt það, en við tækluðum þetta vel og nýttum þann tíma sem við fengum saman mjög vel. Við vorum sjö að æfa saman úti í Svíþjóð og þær sem æfðu heima æfðu vel.

Við erum líka búnar að vera lengi saman sem lið og þurfum þess vegna ekkert sérstaklega langan aðlögunartíma. Þegar allt kemur til alls gekk þetta vel upp og við unnum leikinn sem er það eina sem skiptir máli.“

Bakverðinum er nokkuð sama um næstu mótherja liðsins í 2. umferðinni.

„Mér er alveg saman hverja við fáum í næstu umferð en það væri gaman að fá heimaleik. Að lokum vil ég bara koma því á framfæri að „We are Icelandic, we are not finnish!“ bætti Elísa við sem má þýða sem við erum íslenskar, við erum ekki finnskar, eða búnar.

Valskonur fagna marki.
Valskonur fagna marki. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert