Þvílík gæði í þessu marki

Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir.
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir. AFP

„Það er erfitt að bera þessa leiki saman. Við mættum ákveðnar í báða leikina sem er jákvætt og við náðum að fylgja eftir því sem við lögðum upp með,“ sagði Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir á blaðamannafundi eftir 1:1-jafntefli Íslands við Ítalíu í vináttuleik í fótbolta ytra í dag. 

„Við erum með nýjan þjálfara sem er með nýjar áherslur. Það var því gott að fá þessa leiki og æfa það sem þurfti að æfa og sérstaklega í nýju leikkerfi,“ sagði hún. 

Ísland fékk á sig mark strax í upphafi leiks en gerði vel í að vinna sig inn í leikinn eftir því sem leið á. 

„Við vorum ekki vaknaðar á fyrstu 20 mínútunum og það kom óöryggi eftir markið. Þegar við unnum okkur inn í leikinn gerðum við vel í að svara. Við gáfum ekki færi á okkur eftir það og við gerðum vel í að halda áfram. Markið kom á fyrstu sekúndunum og það var einbeitingarleysi. Það getur gerst í fótbolta en svo unnum við okkur inn í leikinn.“

Einhverjir leikmenn ítalska liðsins voru ósáttir við mark Íslands þar sem einn leikmaður þess lá á grasinu þegar Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði. 

„Það var mikið af atvikum í þessum leik sem átti að stoppa. Karólína fékk höfuðmeiðsli en þá var ekki að stoppað og það átti ekki að stoppa í þessu atviki. Það var áfram gakk og það voru þvílík gæði í þessu marki,“ sagði Andrea. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert