Biðst afsökunar á hryllingstæklingunni

Úr leik KA og Leiknis í gær.
Úr leik KA og Leiknis í gær. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Octavio Páez, Venesúelamaðurinn í liði Leiknis úr Reykjavík, hefur beðist afsökunar á ljótri tæklingu sinni í 0:3 tapi liðsins gegn KA í úrvalsdeild karla í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, í gær.

Páez, sem leikur sem miðjumaður, kom inn á sem varamaður á 71. mínútu leiksins í sínum fyrsta leik fyrir Leikni og fékk beint rautt spjald fyrir hrottalega tveggja fóta tæklingu á Kára Gautasyni.

Hann hefur nú beðist afsökunar á tæklingunni og segir að honum hafi hlaupið kapp í kinn.

„Mig langar að biðjast afsökunar á því sem gerðist í gær. Löngun mín til að spila fór með mig. Það var aldrei ætlun mín að meiða andstæðing minn en mér þykir þetta samt sem áður leitt. Þetta er ekki ég og ég bið allt liðið og stuðningsmenn afsökunar,“ skrifaði Páez á twitter-aðgangi sínum í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert