Hætti ekki að klípa í rassinn á mér

Jökull var hress á æfingu U21 árs landsliðsins í dag.
Jökull var hress á æfingu U21 árs landsliðsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markvörðurinn Jökull Andrésson æfir þessa dagana með U21 árs landsliðinu í fótbolta, en hann hefur leikið með U17 og U19 ára landsliðunum undanfarin ár. Jökull, sem er 19 ára, er spenntur fyrir nýrri kynslóð hjá U21 árs liðinu.

„Þetta er virkilega spennandi. Það eru margir ungir, flottir og efnilegir leikmenn sem eru að koma upp núna. Það er ótrúlega gaman fyrir mig að sjá þetta og fá að æfa með þeim. Þetta er blanda af strákum sem ég hef æft með og strákum sem ég er að æfa með í fyrsta skipti og það er gaman að sjá þetta allt koma saman. Framtíðin hjá Íslandi er stór,“ sagði Jökull við mbl.is.

Hann segir nokkurn mun á því að vera með U19 ára liðinu og svo U21 árs liðinu sem þeir Davíð Snorri Jónasson og Hermann Hreiðarsson þjálfa. „Það eru alltaf nýir hlutir og nýir leikmenn og svo núna nýr þjálfari. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er hjá Davíð og svo er ógeðslega gaman að vera með Hemma líka. Strákarnir eru samt alltaf bara strákarnir og það er ótrúlega gaman að vera með þeim inni í klefa og svo á fótboltavellinum.“

Jökull Andrésson í leik með Exeter.
Jökull Andrésson í leik með Exeter. Ljósmynd/Exeter

Jökull, sem er uppalinn hjá Aftureldingu, er samningsbundinn enska B-deildarfélaginu Reading. Hann var hins vegar að láni hjá bæði Exeter og Morecambe í ensku D-deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann spilaði samtals 31 deildarleik.

Ekki hægt að biðja um meira

„Þetta var alveg stórkostlegt, bæði gaman og reynslumikið. Ég gat ekki beðið um neitt meira. Ég var bæði hjá Exeter og Morecambe og Morecambe fór upp um deild. Það var gaman að sjá alla vega eitt af liðunum mínum fara upp. Ég spilaði yfir 30 leiki og það er ekki hægt að biðja um meira sem ungur markvörður á Englandi,“ sagði Jökull, en hann átti ekki von á að fá eins stórt hlutverk og raun bar vitni.

„Þetta kom mér allt á óvart. Ég byrjaði tímabilið og ég hafði enga hugmynd um hvað ég væri að fara að gera. Ég fékk eitt heppnisneyðarlán og þetta byrjaði allt út frá því. Þetta gekk allt rosalega vel. Auðvitað hefði verið gaman að komast í umspilið með Exeter, en persónulega gat þetta ekki farið betur,“ sagði Jökull. Exeter rétt missti af sæti í umspili um sæti í C-deildinni eftir fáa sigra á lokakaflanum.

Jökull er samningsbundinn Reading.
Jökull er samningsbundinn Reading. Ljósmynd/Reading

Fótboltinn í D-deildum Englands getur verið skrautlegur og sömuleiðis leikmenn, eins og Jökull útskýrir.

„Þú finnur að topp 6-8 liðin reyna að spila fótbolta en restin af liðunum sparkar bara fram og reyna að vera leiðinleg við markmanninn. Það var einn sem var alltaf að klípa í rassinn á mér. Það var ótrúlega skrítið því hann hætti því ekki. Svo reyndi hann að taka markmannshanskana af mér. Maður upplifði rosalega marga hluti þarna sem maður hefur aldrei gert áður,“ sagði Jökull hlæjandi.

Hann segist spenntari fyrir því að fara aftur á lán og spila. „Það er að sjálfsögðu planið. Ég er núna kominn með yfir 35 deildarleiki og það væri gaman að komast í C-deildina. Ég hef líka talað við Reading um að verða markmaður númer tvö hjá Reading. Það eru margir valkostir en ég væri til í að fara aftur á lán og spila eins marga leiki og ég get,“ sagði Jökull Andrésson.

mbl.is