Komum ekki hingað til að hita þá upp

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eiður Smári Guðjohnsen, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, var brattur í viðtali sem birtist á vef RÚV fyrir vináttuleik liðsins við Pólland ytra í dag. Flautað verður til leiks klukkan 16.  

„Við vorum mjög ánægðir með frammistöðuna í Dallas en þetta var ábótavant í Færeyjum, þrátt fyrir sigur. Nú þurfum við blöndu á góðri frammistöðu og góðum úrslitum og klára þetta verkefni með sæmd,“ sagði Eiður en Ísland tapaði fyrir Mexíkó í Dallas, 1:2, en vann síðan 1:0-sigur í Færeyjum. 

Allir leikmenn íslenska liðsins eru klárir í slaginn. „Það eru allir klárir og það er létt yfir okkur og fer vel um okkur. Við erum að fara að spila á frábærum velli við frábærar aðstæður og það verða væntanlega einhverjar þúsundir áhorfenda.“

Pólska liðið hefur þegar tryggt sér sæti á EM og er í fullum undirbúningi fyrir það mót. Íslenska liðið ætlar samt sem áður að sparka frá sér. 

„Við ætlum ekki að koma í þennan leik sem æfingafélagar. Pólverjar eru að fara á stórmót og við ætlum ekki að koma hingað til að hita þá upp fyrir það mót. Við erum á okkar vegferð að leggja grunninn að því sem við ætlum að taka með okkur inn í haustið þar sem við spilum þrjá mjög mikilvæga leiki. Þetta er endahnúturinn á þeim undirbúningi,“ sagði Eiður. 

mbl.is