Góður seinni hálfleikur í sigri Íslands

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skorar annað mark Íslands með föstu skoti …
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skorar annað mark Íslands með föstu skoti frá vítateig. mbl.is/Kristinn Magnússon

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoruðu mörk Íslands í 2:0-sigri á Írlandi í vináttuleik í fótbolta á Laugardalsvelli í dag. Bæði mörkin komu í góðum seinni hálfleik eftir rólegan fyrri hálfleik. 

Fyrri hálfleikurinn var með rólegasta móti og voru færin fá og langt á milli þeirra. Berglind Björg Þorvaldsdóttir fékk langbesta færi fyrri hálfleiks þegar hún slapp ein inn fyrir en Courtney Brosnan í marki Íra gerði vel í að verja frá henni. Írar voru baráttuglaðir en sköpuðu sér sömuleiðis fá færi og var staðan í hálfleik markalaus.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kemur Íslandi yfir í leiknum í dag.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir kemur Íslandi yfir í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ísland byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og Sveindís Jane Jónsdóttir slapp ein í gegn snemma í hálfleiknum en hitti boltann illa, ein gegn Brosnan. Í kjölfarið fékk Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir gott færi en þá varði Brosnan mjög vel.

Brosnan kom hins vegar engum vörnum við á 54. mínútu þegar Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir átti flotta fyrirgjöf á Berglindi Björgu sem var óvölduð í teignum og skoraði fyrsta markið.

Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Karólína Vilhjálmsdóttir bætti við öðru …
Íslensku leikmennirnir fagna eftir að Karólína Vilhjálmsdóttir bætti við öðru marki Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Örstuttu síðar fékk Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir gott færi til að bæta við öðru marki en hún setti boltann yfir af stuttu færi.

Annað markið kom loks á 83. mínútu og það gerði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir þegar hún vann boltann á miðjum vallarhelmingi Íra, brunaði að marki, lét vaða við vítateigslínu og boltinn söng í bláhorninu fjær.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar marki sínu.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fagnar marki sínu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fátt markvert gerðist eftir annað markið og Ísland fagnaði því tveimur sigrum á Írlandi í tveimur tilraunum. 

Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólina Lea Vilhjálmsdóttir í baráttu við …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir og Karólina Lea Vilhjálmsdóttir í baráttu við Íra í leiknum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon
Ísland 2:0 Írland opna loka
90. mín. Karólína er í lagi og heldur áfram. Það verða að minnsta kosti sex mínútur í uppbótartíma. Það eru ekki sérstaklega góðar fréttir þar sem mér er rosalega kalt. Ég gleymdi ullarnærfötunum út í bíl.
mbl.is