Valsmenn úr leik í Meistaradeildinni

Valsmaðurinn Johannes Vall reynir að stöðva slóvenska landsliðsmanninn Petar Stojanovic …
Valsmaðurinn Johannes Vall reynir að stöðva slóvenska landsliðsmanninn Petar Stojanovic í kvöld. mbl.is/Unnur Karen

Íslandsmeistarar Vals eru úr leik í Meistaradeild Evrópu í fótbolta eftir 0:2-tap á heimavelli fyrir Króatíumeisturum Dinamo Zagreb í seinni leik liðanna í kvöld. Dinamo vann fyrri leikinn 3:2 og einvígið samanlagt 5:2. Valsmenn fara í 2. umferð Sambandsdeildarinnar.

Valsmenn léku vel fyrsta hálftímann og þá sérstaklega í vörninni. Þeir gáfu fá færi á sér og Hannes Þór Halldórsson þurfti lítið að gera í markinu. Hinum megin reyndu Valsmenn að sækja hratt og nýta sér veikleika í vörn króatíska liðsins.

Eftir því sem leið á hálfleikinn náðu gestirnir meiri stjórn á leiknum og það var ekki gegn gangi leiksins þegar króatíski landsliðsmaðurinn Luka Ivanusec kom Dinamo yfir á 31. mínútu.

Lovro Majer átti sendingu inn fyrir vörn Vals og Ivanusec fór illa með Rasmus Christiansen áður en hann skoraði af miklu öryggi framhjá Hannesi. Dinamo var sterkara liðið út hálfleikinn og var líklegra til að bæta við en Valur að jafna. Það tókst hinsvegar ekki og var staðan í hálfleik 1:0, Dinamo í vil.

Valsmenn fengu fyrsta færi seinni hálfleiksins þegar Johannes Vall slepp upp vinstra megin á vellinum en skaut framhjá úr nokkuð þröngu færi. Heimamenn fengu annað mjög gott færi á 68. mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson náði skoti að marki úr teignum en Danijel Zagorac í marki Dinamo varði virkilega vel.

Valsmenn reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin og áttu nokkrar fínar sóknir í seinni hálfleik. Það tókst hinsvegar ekki og Dinamo refsaði með marki frá Mislav Orsic undir lokin og þar við sat.

Valur mætir annaðhvort Bodø/​​Glimt frá Nor­egi eða Leg­ia frá Var­sjá í Póllandi í 2. um­ferð Sam­bands­deild­ar­inn­ar. Legia vann fyrri leikinn á útivelli 3:2 og seinni leikurinn fer fram í Póllandi annað kvöld. Alfons Sampsted leikur með norska liðinu.

Endað með mörkum á öðrum degi

Valur varðist heilt yfir vel í kvöld og náði að skapa sér fín færi sem á öðrum degi hefðu endað með mörkum. Birkir Heimisson er að komast betur og betur inn í Valsliðið og hann var besti leikmaður liðsins í gærkvöldi. Hannes Þór Halldórsson varði nokkrum sinnum vel. Þá kom Andri Adolphsson með kraft inn í liðið er hann kom inn á sem varamaður hálftíma fyrir leikslok.

Valur 0:2 Dinamo Zagreb opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is