Þetta var einfaldlega ekki til útflutnings

Guðmundur Steinn Hafsteinsson lék sinn fyrsta leik með Fylki og …
Guðmundur Steinn Hafsteinsson lék sinn fyrsta leik með Fylki og fékk bestu færi liðsins. mbl.is/Unnur Karen

„Í dag vorum við ekki betri en þetta og áttum ekki meira skilið,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson annar þjálfara Fylkis eftir að Árbæjarliðið steinlá fyrir KR, 4:0, í úrvalsdeild karla í fótbolta, Pepsi Max-deildinni, á Meistaravöllum í kvöld.

„Þetta var ekki gott, það er erfitt að benda á eitthvað eitt og það eru eflaust margar samverkandi ástæður fyrir því, en þetta var einn af þessum leikjum þar sem við erum alltof passífir, erum alltof aftarlega og KR-ingar réðu bara lögum og lofum á vellinum.

Við hefðum eflaust getað farið framar og pressað þá og eftir á að hyggja hefði það líklega verið betra. Þetta upplegg gafst nokkuð vel á móti KA en svo reyndum við að fara framar á móti FH og það gekk ekki alveg jafnvel. Við ætluðum að veðja á þetta núna og það bara gekk ekki upp.

En þó við liggum aftarlega á vellinum þurfum við að vera agressívari en þetta. Það var alltof mikill sofandaháttur í gangi í liðinu. 

Þetta var bara einn af þessum dögum og eftir að KR skoraði þriðja markið var aldrei nein leið til baka. Þetta var einfaldlega ekki til útflutnings,“ sagði Atli Sveinn við mbl.is eftir leikinn.

Atli Sveinn Þórarinsson er annar þjálfara Fylkis.
Atli Sveinn Þórarinsson er annar þjálfara Fylkis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fylkir er áfram fjórum stigum frá fallsæti deildarinnar og situr í níunda sætinu.

„Það breytist ekkert og svarið við því er einfaldlega að spila betur. Við verðum bara að finna lausnir á því. Í dag vorum við ekki betri en þetta og áttum ekki meira skilið,“ sagði Atli af hreinskilni.

Tvær til þrjár vikur í Ragnar

Spurður um Ragnar Sigurðsson, Djair Parfitt-Williams og Nikulás Val Gunnarsson sem ekki voru með, Ragnar er nýkominn og hinir meiddir, sagði Atli Sveinn:

„Staðan á hópnum er þannig séð ágæt. Raggi Sig. æfði í gær og það eru svona tvær vikur í hann. Raggi er í fínu standi en er ekki búinn að æfa fótbolta í tvo til þrjá mánuði þannig að hann þarf tvær til þrjár vikur til að ná upp leikformi.

Djair er meiddur, hann er að glíma við ökklameiðsli og við vonumst eftir því að hann nái næsta leik. Svo er Nikulás Val búinn að vera lengi frá með bólgur í lífbeini og nára. Arnór Borg var að stíga upp úr veikindum, leit bara vel út í dag og er að komast aftur í gang,“ sagði Atli Sveinn Þórarinsson þjálfari Fylkis.

mbl.is