Erum ennþá með í baráttunni

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var þungur á brún í leikslok í kvöld, en lið hans fékk skell á móti Breiðabliki á Kópavogsvelli í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 4:0 fyrir heimamenn, þrátt fyrir að Víkingar hafi byrjað leikinn af miklum krafti, og átt nokkur mjög góð færi á fyrstu tólf mínútum leiksins. Arnar segir að sínir menn hafi mögulega fyllst of miklu sjálfstrausti eftir byrjunina og farið að slaka á. 

„Um leið og þú dregur 5% af þeirri 100% ákefð sem þarf í svona leikjum, þá endar þú í slæmum málum,“ segir Arnar. Hann segir að fyrsta mark Blikanna hafi verið vel afgreitt hjá Jasoni Daða Svanþórssyni, sem var maður leiksins, en að sér hafi þótt seinna mark hans hafa komið eftir ákveðinn klaufaskap í vörn Víkinga. 

„Við eigum að gera betur í því marki, en svo kemur hálfleikurinn. Þá er það gamla klisjan um að þriðja mark leiksins skipti sköpum, en við byrjum seinni hálfleikinn hræðilega. Í staðinn fyrir að við gerðum það sem menn ætluðu að gera og töluðum um í hálfleik var þetta bara léleg frammistaða. Blikarnir gengu á lagið og gengu bara frá okkur,“ segir Arnar. 

Arnar segir að Blikarnir hafi gert mjög vel í að ná yfirhöndinni og halda henni út leikinn. „Þeir náðu að læsa klónum sínum í okkur, og þetta var bara erfitt. Maður er nú gamall refur í þessum bolta og hefur séð svona oft áður, en við erum ennþá með í baráttunni,“ segir Arnar sem bendir á að Víkingar séu ennþá ofar í stigatöflunni en bæði Breiðablik og KR. „Og þessi lið hafa öll átt frábær tímabil. Við megum því vera drullufúlir í kvöld, en mætum svo ferskir á morgun.“

Víkingar eiga tvo erfiða leiki framundan, þar sem KA-menn mæta næst í Fossvoginn í deildinni, og bikarleikur við KR bíður svo handan við hornið. Arnar segir Víkinga þurfa að fara vel yfir leikinn í kvöld og sjá hvað hafi farið úrskeiðis og reyna að laga það. „Það er hægt að tala endalaust um taktík og þannig, en það vantaði bara ákefð í okkar leik sem Blikarnir höfðu eftir fyrstu tuttugu mínúturnar. Þá fengu þeir blod på tanden og við fórum inn í skel, og vorum ólíkir sjálfum okkur. Jafnvel okkar reyndustu menn gerðu mistök sem þeir gera vanalega ekki. Ég þarf að minna þá á að þeir eru ennþá góðir fótboltamenn, og úrslitin í kvöld eru enginn heimsendir,“ segir Arnar, sem bætir þó við að Víkingar hafi ekki efni á að misstíga sig aftur jafnilla og þeir gerðu í kvöld. 

Ljóst er að margir knattspyrnuáhugamenn munu fylgjast með leik Vals og KR að Hlíðarenda á miðvikudaginn af miklum áhuga. Arnar viðurkennir aðspurður að hann verði einn þeirra sem vonist til þess að úrslitin þar verði ekki Val í hag. „Ég væri að ljúga ef ég segði annað, en ég tel líka að fyrir hinn almenna knattspyrnuáhugamann, að ef KR vinnur verðum við komnir með geggjað mót, þar sem allt í einu eru allt að fimm lið komin í einn hnapp. Því fagna allir knattspyrnuáhugamenn, nema kannski við Víkingar í kvöld, en þetta er gaman fyrir fótboltann.“ 

Arnar bætir við að það hafi verið mikill stígandi í mótinu til þessa og mörg sterk lið að berjast. „Við sáum hvernig Blikarnir fóru með Austria Wien. Það var hlegið að Pepsi-deildinni í fyrra, en sömu menn hlæja ekki mikið í ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert