Sérstakt að sjá Blikamerkið í þessum hópi

Breiðablik tekur þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár en liðið …
Breiðablik tekur þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í ár en liðið dróst í riðil með PSG, Real Madríd og Zhytlobud Kharkiv. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breiðablik mætir Frakklandsmeisturum París SG í riðlakeppni Meistaradeildar kvenna í knattspyrnu en dregið var í höfuðstöðvum UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins, í Nyon í Sviss í gær.

Breiðablik dróst í B-riðil riðlakeppninnar ásamt París SG, spænska stórliðinu Real Madríd og Zhytlobud Kharkiv frá Úkraínu en leikir riðlakeppninnar fara fram í október, nóvember og desember á þessu ári.

„Þetta er hörkuriðill en það voru auðvitað frábær lið í pottinum þannig að við vissum að við værum alltaf að fara lenda í riðli með mjög góðum liðum,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, fyrirliði Breiðabliks, í samtali við Morgunblaðið.

„Það eru tvö risafélög þarna með okkur og ég skal alveg viðurkenna það að ég fagnaði aðeins þegar ég sá úkraínska liðið dragast með okkur. Heilt yfir þá er þetta virkilega spennandi og það stefnir í mikið ævintýri.

Við þekkjum Parísarliðið ágætlega sem er ákveðinn kostur. Real Madríd er aðeins óskrifað blað þar sem þetta er lið sem við þekkjum ekki mikið til. Þetta er nýtt lið í kvennaboltanum en þær slógu Manchester City úr leik á leið sinni í riðlakeppnina þannig að þær kunna ýmislegt fyrir sér.

Ég tel okkur hins vegar eiga ágætismöguleika gegn þessu úkraínska liði en við gerum okkur allar grein fyrir því að þetta verður erfitt verkefni. Á sama tíma getur allt gerst í fótbolta og það er uppörvandi hugsun,“ sagði Ásta.

Varnarleikurinn í aðalhlutverki

París SG varð Frakklandsmeistari í fyrsta sinn eftir að Lyon hafði unnið frönsku 1. deildina fimm ár í röð. Breiðablik og París SG mættust í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar árið 2019 þar sem franska liðið hafði betur, samanlagt 7:1.

„Þegar við mættum París SG fyrir tveimur árum þá keyrðu þær aðeins yfir okkur í fyrri leiknum í Kópavoginum. Við vissum ekki alveg út í hvað við vorum að fara en við stilltum okkur betur af í seinni leiknum og skoruðum meðal annars mark á þeirra heimavelli.

Möguleikinn er þess vegna alltaf til staðar og við eigum að geta strítt liði á borð við Real Madríd. Við þurfum fyrst og fremst að undirbúa okkur mjög vel, einbeita okkur að varnarleiknum og að halda markinu okkar hreinu. Við erum svo með mjög hraða leikmenn fram á við sem geta strítt hvaða varnarmönnum sem er í heiminum.“

Ásta Eir Árnadóttir í baráttunni við Amy Lawrence hjá PSG …
Ásta Eir Árnadóttir í baráttunni við Amy Lawrence hjá PSG haustið 2019. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öll stærstu kvennalið Evrópu voru í pottinum í gær en þar ber hæst að nefna lið á borð við Chelsea, Wolfsburg, Juventus, Barcelona, Arsenal, Bayern München og Lyon.

„Það var dálítið sérstök tilfinning að fylgjast með drættinum í tölvunni, ég get alveg viðurkennt það, vitandi það að við værum í pottinum. Þegar maður sá okkur dragast í riðil með PSG þá fékk maður smá endurminningar frá drættinum fyrir tveimur árum.

Við erum nokkrar í hópnum sem þekkjum það ágætlega að spila á móti þessum risaliðum og það ætti að nýtast okkur, bæði þegar inn í leikinn er komið og eins þegar kemur að öllum undirbúningi fyrir þessa allra stærstu leiki,“ bætti Ásta við.

Frábært fyrir kvennaboltann

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnum, er spenntur fyrir þátttöku Blika í Meistaradeildinni en hann stýrði liðinu frá 2014 til 2021 þegar hann lét af störfum í janúar á þessu ári til þess að taka við kvennalandsliðinu.

„Leikirnir á móti PSG og Real Madríd verða mjög erfiðir en án þess að þekkja úkraínska liðið eitthvað þá skilst mér að Blikarnir eigi ágætis möguleika gegn þeim,“ sagði Þorsteinn.

Þorsteinn Halldórsson var þjálfari Breiðabliks um langt skeið.
Þorsteinn Halldórsson var þjálfari Breiðabliks um langt skeið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er alveg klárt mál að margir leikmenn liðsins fengu dýrmæta reynslu í Meistaradeildinni árið 2019 þegar liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum gegn PSG. Sú reynsla nýttist þeim klárlega í fyrstu umferð keppninnar sem og í einvíginu gegn Osijek í annarri umferðinni og það skein í gegn að mínu mati.

Fyrirfram þá mundi maður gefa sér það að þær verði að berjast um þriðja sæti riðilsins en á sama tíma maður vonast maður til þess að það verði alvöru íslenskt veður þegar Real Madríd og PSG mæta til landsins. Það gæti slegið leikmenn stórliðana út af laginu og ætti að vera eitthvað sem Blikarnir geta nýtt sér.“

Þorsteinn telur að árangur Blika geti hvatt önnur lið til dáða á næstu árum í Evrópukeppnum.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »