Sá markahæsti farinn úr Árbænum

Djair Parfitt-Williams í baráttu við Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða Breiðabliks, í …
Djair Parfitt-Williams í baráttu við Höskuld Gunnlaugsson, fyrirliða Breiðabliks, í síðasta leik sínum fyrir Fylki. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Djair Parfitt-Williams, markahæsti leikmaður karlaliðs Fylkis í knattspyrnu í sumar, hefur yfirgefið herbúðir Árbæjarliðsins og er þar með búinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið.

Parfitt-Williams hefur talsvert verið að glíma við meiðsli á tímabilinu en er þrátt fyrir það markahæstur Fylkismanna í úrvalsdeildinni með fimm mörk í 13 leikjum.

Síðasti leikurinn sem hann spilaði fyrir Fylki var í 0:7 tapinu fyrir Breiðabliki í deildinni, sem varð þess valdandi að Atli Sveinn Þórarinsson og Ólafur Ingi Stígsson voru látnir taka pokann sinn sem aðalþjálfarar liðsins.

Rúnar Páll Sigmundsson, núverandi þjálfari Fylkis, staðfesti brottför Parfitt-Williams í samtali við Fótbolta.net eftir 0:1 tap Fylkis fyrir Víkingi úr Reykjavík í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í gærkvöldi.

„Djair er horfinn á braut,” sagði Rúnar Páll einfaldlega í samtali sínu við Fótbolta.net.

Parfitt-Williams gekk til liðs við Fylki fyrir síðasta tímabil eftir að hafa leikið með Rudar Velenje í efstu deild Slóveníu. Hann hafði áður verið í unglingaliðum enska úrvalsdeildarfélagsins West Ham United.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert