Tilbúinn til að sitja áfram í stjórn KSÍ

Þóroddur Hjaltalín var dómari um árabil og síðan formaður dómaranefndar …
Þóroddur Hjaltalín var dómari um árabil og síðan formaður dómaranefndar KSÍ. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þóroddur Hjaltalín, fyrrverandi milliríkjadómari í knattspyrnu, gefur kost á sér áfram til stjórnarsetu hjá Knattspyrnusambandi Íslands fyrir aukaþingið sem haldið verður annan laugardag, 2. október.

Þóroddur sagði af sér fyrr í þessum mánuði eins og öll stjórn og varastjórn KSÍ vegna kynferðisofbeldismálanna sem upp komu og tengdust landsliðsmönnum Íslands.

Hann hefur setið í varastjórn og verið formaður dómaranefndar KSÍ og er reiðubúinn til að halda því áfram.

Þóroddur tilkynnti þetta á Facebook-síðu sinni í dag:

Kæru vinir. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum hefur ýmislegt gengið á undanfarnar vikur hjá KSÍ. Upp kom sú staða að stjórn sambandsins naut ekki lengur trausts frá knattspyrnuhreyfingunni. Það varð til þess að stjórnin sagði öll af sér og boðaði til aukaþings.

Ljóst er að miklu betur hefði átt að gera af hálfu KSÍ í þeim málum sem nú eru að koma upp. Ég vil samt taka það skýrt fram að ásakanir um að allir stjórnarmeðlimir hafi ekki bara vitað af þessum málum heldur tekið markvissan þátt í að þagga niður kynferðisbrot eru með öllu ósannnar og get ég illa undir því setið. Ég hef aldrei haft neina vitneskju um þessi mál og lítið skipt mér af landsliðunum okkar yfir höfuð, enda aldrei farið leynt með það að tilgangur minn með stjórnarsetu hefur alltaf snúist um þröngan málaflokk, þ.e. dómaramál.

Undanfarna daga hef ég fundið fyrir miklum stuðningi víðs vegar að. Það þykir mér óendanlega vænt um og í ljósi þess hef ég ákveðið að bjóða mig fram aftur til setu í varastjórn KSÍ á aukaþinginu þann 2.október nk. með von um að geta áfram leitt dómaranefndina og störf dómara í landinu.

Þessi stuðningur hefur ekki einungis orðið til þess að ég ætla að bjóða mig fram aftur heldur fyllt mig eldmóði til að gera ennþá betur. Ég hef mikinn metnað til að auka veg og virðingu dómarastarfa hér á landi og tel mig enn hafa margt fram að færa í því.

mbl.is