Verður áfram með Keflavík

Freyr Sverrisson, Gunnar Magnús Jónsson, Hjörtur Fjeldsted og Óskar Rúnarsson. …
Freyr Sverrisson, Gunnar Magnús Jónsson, Hjörtur Fjeldsted og Óskar Rúnarsson. Á myndina vantar Sævar Júlíusson. Ljósmynd/Keflavík

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur komist að samkomulagi við Gunnar Magnús Jónsson um að hann haldi áfram sem þjálfari kvennaliðs félagsins. Gerir hann samning út næsta tímabil.

Undir stjórn Gunnars Magnúsar tókst nýliðum Keflvíkinga að bjarga sér frá falli úr úrvalsdeild kvenna, Pepsi Max-deildinni, á nýafstöðnu tímabili.

Liðið hafnaði í áttunda sæti af tíu liðum, fjórum stigum fyrir ofan Tindastól í níunda sætinu og fimm stigum fyrir ofan Fylki í tíunda sæti.

Allt þjálfarateymið sem var Gunnari Magnúsi til halds og trausts á síðasta tímabili hefur sömuleiðis framlengt samninga sína um eitt ár.

Þar er um að ræða Hjört Fjeldsted aðstoðarþjálfara, Sævar Júlíusson markmannsþjálfara, Frey Sverrisson tækniþjálfara og Óskar Rúnarsson leikgreinanda.

mbl.is