Heldur kyrru fyrir hjá nýliðunum

Indriði Áki Þorláksson í leik með Fram gegn Þór frá …
Indriði Áki Þorláksson í leik með Fram gegn Þór frá Akureyri í sumar. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Knattspyrnumaðurinn Indriði Áki Þorláksson hefur framlengt samning sinn við Fram til tveggja ára. Samningurinn gildir því út keppnistímabilið 2023.

Indriði Áki sneri aftur til Fram fyrir síðasta tímabil og lék afar vel þegar Fram vann fyrstu deildina með miklum yfirburðum, án þess að tapa leik.

Liðið leikur því sem nýliði í úrvalsdeildinni á komandi tímabili. Fram lék síðast í efstu deild árið 2014.

Alls hefur Indriði Áki leikið 87 leiki fyrir Fram og skorað í þeim 13 mörk, en hann lék áður með Fram árin 2015-2017.

„Knattspyrnudeild Fram fagnar því að hafa Indriða Áka áfram í sínum röðum og bindur miklar vonir við hann á komandi árum,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá knattspyrnudeild Fram.

mbl.is