Ævintýri karlalandsliðsins á enda

Leikmenn karlalandsliðsins fagna 2:1-sigri gegn Englandi á EM 2016 í …
Leikmenn karlalandsliðsins fagna 2:1-sigri gegn Englandi á EM 2016 í Nice í Frakklandi. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ísland er landið sem vann hug og hjörtu knattspyrnuheimsins. Þeir eru fámennasta þjóðin til þess að komast í lokakeppni HM og liðið sem lagði England að velli í sextán liða úrslitum Evrópumótsins. Tannlæknir í hlutastarfi stýrði liðinu og víkingaklappið fræga. Man einhver eftir Íslandi?“

Svona hefst umfjöllun The Athletic um íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, Knattspyrnusamband Íslands og kynferðis- og ofbeldismálin sem upp hafa komið innan hreyfingarinnar undanfarna mánuði. 

Stuart James, blaðamaður hjá The Athletic, skrifar greinina ásamt Stefáni Snæ en James eyddi viku á Íslandi á meðan hann kafaði ofan í kjölin á málefnum karlalandsliðsins. Þá sat hann blaðamannafundi íslenska liðsins í landsleikjaglugganum í september á þessu ári.

Aron Einar Gunnarsson er einn þeirra leikmanna sem hefur verið …
Aron Einar Gunnarsson er einn þeirra leikmanna sem hefur verið sakaður um kynferðisbrot. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Meint brot landsliðsmanna í aðalhlutverki

Í greininni er meðal annars fjallað um meint ofbeldisbrot Kolbeins Sigþórssonar í garð Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur sem átti sér stað í Reykjavík árið 2017. Þá er fjallað um meinta nauðgun Arons Einars Gunnarssonar og Eggert Gunnþórs Jónssonar sem á að hafa átt sér stað í Kaupmannahöfn árið 2010.

James ræðir við fjölda fólks í umfjöllun sinni en þar ber hæst að nefna Guðna Bergsson, Vöndu Sigurgeirsdóttur, meðlimi í aðgerðahópnum Öfgum, lögmenn Arons Einars Gunnarssonar og Kolbeins Sigþórssonar, Hilmar Jökul Stefánsson meðlim í stuðningsmannasveit Tólfunnar og Kolbrúnu Hrund Sigurgeirsdóttur hjá Reykjavíkurborg.

„Á köldu og blautu föstudagskvöldi í Reykjavík er tilfinningin sú að ævintýri íslenska karlalandsliðsins sé á enda,“ segir í umfjöllun The Athletic.

„Ísland er að spila við Armeníu í undankeppni HM á Laugardalsvelli og hvert sem litið er má sjá auð sæti í stúkunni. Alls eru 1.697 manns í stúkunni, sem er versta mæting á landsleik hjá liðinu síðan árið 1997,“ segir ennfremur í umfjölluninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert