Selfoss á toppinn – annar sigur HK

Kári Steinn Hlífarsson úr Aftureldingu í baráttunni við Ásgeir Marteinsson …
Kári Steinn Hlífarsson úr Aftureldingu í baráttunni við Ásgeir Marteinsson úr HK í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Selfoss fór í kvöld upp í toppsæti Lengjudeildar karla í fótbolta með 4:0-stórsigri á heimavelli gegn nýliðum Þróttar frá Vogum.

Spánverjinn Gonzalo Zamorano skoraði tvö fyrstu mörk Selfoss á 15. og 64. mínútu og fyrirliðin Gary Martin bætti við þriðja markinu á 75. mínútu. Varamaðurinn Alexander Clive Vokes Njarðarson gerði fjórða mark Selfyssinga í blálokin og þar við sat.

Selfoss er í toppsætinu með tíu stig, þremur stigum á undan Fylki sem á leik til góða. Þróttur er í næstneðsta sæti með aðeins eitt stig.

Þá vann HK sinn annan sigur í sumar er liðið lagði Aftureldingu af velli í Kórnum, 2:0. Stefán Ingi Sigurðarson gerði fyrra markið á lokamínútu fyrri hálfleiks og Valgeir Valgeirsson gulltryggði sigurinn með marki á 77. mínútu.  

Með sigrinum fór HK úr níunda sæti og upp í það fimmta, þar sem liðið er með sex stig. Afturelding er aðeins með tvö stig í tíunda sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert