Erum ekki að búa til færin

Ægir Jarl Jónasson
Ægir Jarl Jónasson Hákon Pálsson

Ægir Jarl Jónasson kom inn sem varamaður í upphafi seinni hálfleiks og skoraði jöfnunarmark KR gegn Fram í Vesturbænum í kvöld en liðin skildu að lokum jöfn, 1:1, í Bestu deild karla í knattspyrnu.

KR-ingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik en skömminni skárri eftir hlé. Þrátt fyrir það gengur illa hjá KR að skapa færi. „Þetta gengur ekki nógu vel hjá okkur, við nýtum ekki færin og erum ekki að búa þau til,“ sagði Ægir í samtali við mbl.is strax að leik loknum.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, breytti um leikkerfi í hálfleik og gerði tvær breytingar. „Hann [Rúnar] breytir um kerfi í seinni hálfleik og það hristir aðeins upp í þessu, við erum betri að mínu mati eftir hlé og líklegri til að taka öll stigin þrjú. En ég held að það sé bara nokkuð sanngjarnt að liðin taki hvort sitt stigið.“

Ægir segir þó KR-inga ekki geta gert annað en að einbeita sér að næsta leik. „Við þurfum bara að halda áfram, það er mikilvægur leikur næst gegn Val á heimavelli.“ KR er búið að vinna einn af sjö heima­leikj­um sín­um í sum­ar og skora sex mörk hérna í Vest­ur­bæn­um.

mbl.is