Á uppleið og niðurleið

Úr leik liðanna í kvöld.
Úr leik liðanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KR og Fram skildu jöfn, 1:1, í Bestu deild karla í fótbolta á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. Það þýðir að liðin eru áfram í 7. og 8. sæti, KR nú með 17 stig en Fram 14.

Liðin mættustu í fjörugum og opnun leik í fyrstu umferð Íslandsmótsins þar sem KR vann 4:1-sigur og var staðan strax orðin 3:0, KR í vil, eftir hálftíma í Safamýrinni. Leikurinn í kvöld var allt annar framan af, Framarar lágu aftarlega á vellinum og vildu fá færi gefa. Hjá Fram gátu svo þeir Tiago Fernandes og Indriði Áki Þorláksson skorað snemma úr ágætis færum en báðir settu þeir boltann framhjá.

Hins vegar áttu KR-ingar fá færi í fyrri hálfleik þrátt fyrir að vera nokkuð meira með boltann. Það voru svo gestirnir sem tóku forystuna rétt fyrir hlé. Guðmundur Magnússon átti þá fast skot utan teigs sem Beitir Ólafsson í marki KR réði ekki nógu vel við, sló boltann beint út í teig þar sem Magnús Þórðarson var fyrstur á staðinn til að skora af stuttu færi.

KR-ingar voru hins vegar eldsnöggir að jafna metin í síðari hálfleik, gerðu það á 47. mínútu en Ægir Jarl Jónasson skoraði með hælnum af stuttu færi eftir hornspyrnu Atla Sigurjónssonar. Ægir var nýkominn inn á sem varamaður en Rúnar Kristinsson þjálfari KR gerði tvöfalda breytingu eftir slakan fyrri hálfleik.

Úr varð svo fjörugur og spennandi síðari hálfleikur þar sem bæði lið fengu sinn skarf af færum. Pálmi Rafn Pálmason og Sigurður Bjartur Hallsson fengu álitleg færi fyrir heimamenn, Pálmi skaut beint á Ólaf Íshólm Ólafsson í marki Fram af stuttu færi og Sigurður Bjartur sneri boltann yfir úr góðu færi innan teigs. Guðmundur skallaði svo boltann rétt framhjá marki KR-inga um tuttugu mínútum fyrir leikslok af stuttu færi. Liðunum tókst hins vegar ekki að kreista fram sigurmark og varð niðurstaðan því 1:1 jafntefli.

KR-ingar voru arfaslakir í fyrri hálfleik og þrátt fyrir bætta frammistöðu eftir hlé fóru heimamenn ekki sáttur heim úr Vesturbænum í kvöld. KR er búið að vinna einn af sjö heimaleikjum sínum í sumar og skora sex mörk hérna í Vesturbænum. Það er afleit uppskera.

Fyrirliðar, þjálfarar og forráðamenn úrvalsdeildarinnar spáðu KR 4. sætinu í sumar en í sömu spá var nýliðum Fram spáð 12. og neðsta sætinu. Það var í ágætis takt við þann spádóm að KR vann sannfærandi 4:1-sigur er liðin mættust í fyrstu umferðinni en síðan þá hefur betur ræst úr tímabili Framara, sem spiluðu vel í kvöld. Með innkomu Almarrs Ormarssonar  á miðjuna og Brynjars Gauta Guðjónssonar í vörnina er komin reynsla og yfirvegun í lið nýliðanna, sem fékk á sig alltof mörg mörk í fyrstu umferðum mótsins. Framarar hafa bara tapað einum af síðustu sex leikjum sínum og eru að spila sinn besta fótbolta til þessa í sumar. Að sama skapi hefur KR nú ekki unnið í síðustu fimm leikjum sínum og virðist ekkert ganga upp í Vesturbænum.

KR 1:1 Fram opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbót en Alex er enn að fá aðhlynningu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert