Jafnt í viðburðaríkum toppslag

Gísli Eyjóflsson og Danijel Dejan Djuric eigast við í Kópavoginum …
Gísli Eyjóflsson og Danijel Dejan Djuric eigast við í Kópavoginum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik og Víkingur úr Reykjavík skildu jöfn, 1:1, í toppslag í Bestu deild karla í fótbolta á Kópavogsvelli í kvöld. Breiðablik er enn í toppsætinu, nú með 39 stig. Víkingur er í þriðja sæti með 31 stig.

Fá færi litu dagsins ljós í fyrri hálfleik og verður honum frekar minnst fyrir mikla baráttu, þrjú meiðsli og mikinn hita á milli liðanna.

Þegar allt stefndi í markalausar fyrstu 45 skoraði varamaðurinn Sölvi Snær Guðbjargarson í uppbótartíma eftir virkilega góðan undirbúning hjá Degi Dan Þórhallssyni og voru hálfleikstölur 1:0, Breiðabliki í vil.

Seinni hálfleikurinn var ósköp svipaður framan af og gekk liðunum illa að skapa sér færi. Víkingum tókst þó að jafna á 62. mínútu þegar uppaldi Blikinn Danijel Dejan Djuric kláraði vel úr teignum eftir að Ari Sigurpálsson skaut í stöng.

Næstu mínútur voru Víkingar mun líklegri til að skora annað mark og átti Danijel nokkrar hættulegar tilraunir en Anton Ari Einarsson í marki Breiðabliks var vel á verði. Leikurinn varð síðan erfiðari fyrir Breiðablik á 78. mínútu er Damir Muminovic fékk sitt annað gula spjald og þar með rautt.

Þrátt fyrir liðsmuninn tókst Víkingum ekki að skapa sér annað gott færi og skiptu liðin því með sér stigunum.

Breiðablik 1:1 Víkingur R. opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma. Fáum við dramatískt sigurmark?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert