Margrét lék með hjálm Jóhanns Helga - „Þessi hjálmur er með 100% sigurhlutfall“

Margrét Árnadóttir með hjálminn í leiknum í kvöld.
Margrét Árnadóttir með hjálminn í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Margrét Árnadóttir, leikmaður Þórs/KA lék með hjálm í 1:0-sigri liðsins gegn Þrótti í kvöld vegna höfuðmeiðsla sem hún hlaut í leik liðsins gegn Aftureldingu á dögunum.

Hjálmur þessi er nokkuð þekktur norðan heiða en hann er í eigu Jóhanns Helga Hannessonar fyrrverandi leikmanns karlaliðs Þórs. Jóhann notaði hjálminn um nokkurt skeið vegna tíðra höfuðmeiðsla á ferlinum.

Fyrr í sumar lék Andrea Mist Pálsdóttir, samherji Margrétar, með hjálminn umtalaða en hún hlaut einnig höfuðhögg.

Jón Stefán Jónsson, annar þjálfara Þórs/KA var spurður sérstaklega út í hjálminn eftir leikinn í kvöld.

„Þetta er hinn frægi hjálmur Jóhanns Helga Hannessonar. Andrea var með hann fyrr í sumar svo þessi hjálmur er með 100% sigurhlutfall í þessu kvennaliði. Ég mun neyða einhverja til þess að vera með hjálminn í næstu leikjum.“

Hjálmurinn virtist ekki angra Margréti mikið í leiknum en hún lék virkilega vel í liði Þórs/KA í kvöld. Nú verður bara að koma í ljós hvaða leikmaður verður næstur í röðinni að prófa þennan merkilega hjálm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert