Evrópudraumur Vals úti eftir jafntefli í Tékklandi

Simona Necidová og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í fyrri leik liðanna …
Simona Necidová og Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í fyrri leik liðanna í síðustu viku. mbl.is/Árni Sæberg

Slavia Prag og Valur gerðu markalaust jafntefli í síðari leik liðanna í 2. umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu kvenna í Prag í dag. Valur er þar með úr leik eftir að hafa tapað fyrri leiknum 0:1 en Slavia er komið áfram í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Heimakonur í Slavia byrjuðu leikinn af miklum krafti, pressuðu Valskonur frammi og sköpuðu sér nokkur hálffæri.

Skot þeirra rötuðu hins vegar ýmist í varnarmenn Vals eða í öruggar hendur Söndru Sigurðardóttur í markinu.

Valur vann sig sífellt betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og tók alfarið við stjórninni síðasta stundarfjórðunginn.

Eftir rúmlega hálftíma leik slapp Cyera Hintzen ein í gegn eftir laglega stungusendingu Önnu Rakelar Pétursdóttur en Olivie Lukásová í marki Slavia varði skot Hintzen úr ögn þröngu færi út í vítateig áður en hreinsað var frá.

Undir lok hálfleiksins átti Ásdís Karen Halldórsdóttir stórhættulegt skot rétt fyrir framan D-bogann en Lukásová, sem mátti hafa sig alla við, gerði vel í að verja skotið yfir markið.

Markalaust var því í leikhléi.

Í síðari hálfleik náðu Valskonur sér ekki nægilega á strik og tókst lengi vel ekki að skapa sér nein færi.

Um hálfleikinn miðjan kom varamaðurinn Elín Metta Jensen sér í fínt færi eftir góðan sprett en táarskot hennar úr þröngu færi fór í hliðarnetið utanvert.

Í hálfleiknum skoraði Slavia tvívegis en í bæði skiptin voru mörkin dæmd af. Fyrst skoraði Tereza Kozárová með laglegum skalla en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Eftir rúmlega klukkutíma leik skoraði Franny Cerná með skoti á lofti en brotið var á Örnu Sif Ásgrímsdóttur í aðdragandanum og því fékk það mark ekki heldur að standa.

Slavia skapaði sér annars nokkur góð færi til viðbótar en hafði ekki erindi sem erfiði.

Þegar þrettán mínútur voru til leiksloka fékk Valur sitt besta færi í leiknum. Anna Rakel tók þá aukaspyrnu utan af velli, fann Örnu Sif eina á fjærstönginni en skot hennar af markteig fór yfir markið.

Leikurinn fjaraði svo út og markalaust jafntefli niðurstaðan, sem þýðir að Slavia vann einvígið samanlagt 1:0 og tekur þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í haust og í vetur.

Slavia Prag 0:0 Valur opna loka
90. mín. Bryndís Arna Níelsdóttir (Valur) fær gult spjald Þrumar Bartovicová niður.
mbl.is