Rosenborg staðfestir komu Ísaks

Ísak Snær Þorvaldsson í treyju Rosenborg.
Ísak Snær Þorvaldsson í treyju Rosenborg. Ljósmynd/Rosenborg

Norska úrvalsdeildarfélagið Rosenborg hefur staðfest kaupin á Ísak Snæ Þorvaldssyni, kantmanni toppliðs Breiðabliks.

Ísak Snær mun klára tímabilið með Breiðabliki, þar sem liðið er í afar góðri stöðu á toppi Bestu deildar karla, og heldur svo til Noregs eftir áramót.

Hann skrifaði undir fimm ára samning við norska stórveldið og mun hitta fyrir liðsfélaga sinn hjá U21-árs landsliðinu í nýafstaðinni undankeppni fyrir EM 2023, Kristal Mána Ingason, sem gekk til liðs við Rosenborg frá Víkingi úr Reykjavík um mitt sumar.

Í samtali við heimasíðu Rosenborg kvaðst Ísak Snær hafa rætt við Kristal Mána um félagið.

„Ég er afskaplega spenntur og hlakka til komandi tíma. Ég valdi Rosenborg vegna þess að félagið hefur sýnt mér áhuga um langt skeið og þetta er stórt félag með sögu sem má vera stoltur af.

Mér líst vel á það sem verið er að gera hér og þetta er félag á uppleið. Ég get ekki beðið eftir að byrja,“ sagði hann og bætti við:

Ég hef átt í samræðum við Kristal um nokkurt skeið. Hann sendi mér skilaboð þegar hann skrifaði sjálfur undir því hann vissi af áhuga félagsins á mér.

Hann hefur sent mér myndir af leikvanginum og hrósað félaginu í hástert. Hann er stór hluti af ástæðunni fyrir því að ég valdi Rosenborg.

mbl.is