Ísland hafði sætaskipti við Jamaíku

Mikael Anderson fagnar jöfnunarmarkinu gegn Albaníu í september.
Mikael Anderson fagnar jöfnunarmarkinu gegn Albaníu í september. Ljósmynd/Alex Nicodim

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu fer upp um eitt sæti á heimslista FIFA sem birtur var í morgun.

Eftir leikina tvo í september þar sem Ísland vann Venesúela 1:0 og gerði 1:1 jafntefli við Albaníu er liðið í 62. sæti en var í 63. sæti þegar listinn var birtur síðast, í ágústmánuði.

Það eru einmitt Jamaíkumenn, undir stjórn Heimis Hallgrímssonar, sem síga niður um tvö sæti eftir tap gegn Argentínu, 3:0, og sitja nú í 64. sætinu. Slóvenía situr á milli Íslands og Jamaíku í 63. sæti.

Engar breytingar eru á fimm efstu sætum listans en þar eru Brasilía, Belgía, Argentína, Frakkland og England, en Ítalir fara upp fyrir Spánverja og í sjötta sætið. Þar á eftir koma Holland, Portúgal og Danmörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert