Breiðablik með níu fingur á titlinum

Úr leik liðanna í dag.
Úr leik liðanna í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tveir leikir fóru fram í efri hluta Bestu-deildar karla í dag. Á Akureyri var sannkallaður stórleikur. Breiðablik kom í heimsókn á Greifavöllinn og spilaði gegn KA. Fyrir umferðina var Breiðablik með 8 stiga forskot á KA og Víking. Sigur Blika myndi þá þýða 11 stiga forskot og að aðeins Víkingur ætti tölfræðilegan möguleika á að taka toppsætið af þeim. KA varð að vinna til að halda í vonina um langsóttan titil. Liðin höfðu mæst á sama velli fyrir mánuði síðan og þá vann KA 2:1. Nú snérist dæmið við og Blikar unnu sanngjarnan 2:1 sigur.

Blikar byrjuðu leikinn af krafti og ógnuðu strax marki KA. Kristijan Jajalo varði tvisvar frábærlega til að neita Blikum um mark og hinum megin þurfti Anton Ari Einarsson að verja einu sinni með tilþrifum. Markalaust var fyrsta hálftímann en Breiðablik skoraði loks og kom það mark eftir hornspyrnu. Eftir skallaeinvígi á nærsvæðinu barst boltinn til Kristins Steindórssonar, sem var aleinn á miðjum vítateig KA. Hann var ekkert að flýta sér, enda með nægan tíma. Lagði hann boltann með nákvæmu skoti út við hægri stöngina, fram hjá nokkuð fjölmennum múr KA-manna. Markið gaf Blikun aukinn kraft og þjörmuðu þeir að KA næstu mínútur. Staðan var 1:0 í hálfleik en nokkur harka hljóp í leikinn í lokin og KA-menn voru ekki par sáttir með þá meðferð sem þeirra leikmenn fengu.

Langt fram í seinni hálfleikinn virtist bara tímaspursmál hvenær Blikar myndu bæta við marki. KA-menn voru í köðlunum en náðu að standa af sér harðar sóknarlotur Blika, sem einokuðu boltann á löngum köflum. Enn þurfti Kristijan Jajalo að verja með tilþrifum þegar Jason Daði Sveinþórsson komst einn gegn honum. Smám saman dró af mönnum en Blikar héldu áfram að halda boltanum. KA-menn virtust ekki eiga nægan kraft til að slá frá sér og virtust Blikar bara sáttir með stöðuna þegar leið að lokum.

KA fékk vítaspyrnu á 83. mínútu eftir að Ásgeir Sigurgeirsson var felldur. Hallgrímur Mar skoraði úr henni en tveimur mínútum síðar lá boltinn í neti KA-manna. Jason Daði vildi ekki klúðra aftur og náði góðu skoti í hægra hornið frá vítateig vinstra megin. 2:1 fyrir Blika og aftur allt í blóma hjá þeim. Urðu þetta lokatölur leiksins og Blikar eru komnir langleiðina að Íslandsmeistaratitlinum.

Bæði lið spiluðu góðan fótbolta. Blikar voru ákafir í sínum leik og pressuðu KA nokkuð framarlega. KA sýndi mikla yfirvegun í öftustu línu og kom sér sjaldan í vandræði þrátt fyrir þessa pressu.

Eins og staðan er núna þá gætu Blikar orðið Íslandsmeistarar strax á mánudag. Þá mætast Stjarnan og Víkingur í leik sem Víkingar þurfa að vinna. Ef það tekst ekki hjá þeim þá verða Blikar Íslandsmeistarar þótt þrjár umferðir séu enn eftir af Íslandsmótinu.

 

KA 1:2 Breiðablik opna loka
90. mín. Jason Daði Svanþórsson (Breiðablik) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert