Fannst ráðgjafafyrirtæki vilja gera lítið úr KSÍ-krísunni

Við höfuðstöðvar KSÍ.
Við höfuðstöðvar KSÍ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

BA-ritgerð Jóhanns Inga Hafþórssonar, íþróttafréttamanns á Morgunblaðinu, sem tekur fyrir verkferla Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, í kjölfar krísu, hefur verið birt.

Ritgerðin ber heitið: Verkferlar KSÍ í kjölfar krísu: Hvaða verkferlar eru til staðar hjá KSÍ þegar kemur að tilkynningum um kynferðisbrot og hafa þeir breyst í kjölfar krísu árið 2021? og birtist á Skemmunni í dag.

Í henni er meðal annars rætt við Ómar Smárason, samskiptastjóra KSÍ, og Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ.

Ómar lýsir í ritgerðinni óánægju með ráðgjafafyrirtæki sem KSÍ réði til þess að hjálpa sambandinu við að takast á við fjölda ásakana á hendur leikmanna karlalandsliðsins um kynferðislegt ofbeldi haustið 2021.

Guðni Bergsson, þáverandi formaður KSÍ, lét skömmu eftir ásakanirnar hafa það eftir sér í viðtali í Kastljósi á RÚV að KSÍ hefði ekki borist nein tilkynning um kynferðisbrot landsliðsmanna. Í ljós kom að það var síður en svo rétt.

„Þau [ráðgjafafyrirtækið] voru að reyna að eyða einhverri umræðu sem var ekkert að fara að hverfa. Aftur vildi ég stíga fram og segja nákvæmlega þetta, hvaða reglur gilda. Það voru mín ráð allan tímann. Þegar ráðgjafarnir koma inn, er önnur ákvörðun tekin.

Það var alls ekki góð hugmynd að fara í Kastljósviðtal, því við vorum alveg meðvituð um hver afstaða RÚV gagnvart KSÍ væri, hún var mjög neikvæð. Við fundum það í öllum samtölum okkar við fréttamenn RÚV. Við vissum hvaða „agenda“ RÚV var að keyra og því var ekki skynsamlegt að fara í þetta viðtal,“ sagði Ómar.

Höfðum ekki fengist við krísu af þessari stærðargráðu áður

Hann sagði Guðna hafa treyst á ráðgjafafyrirtækið í einu og öllu. Þar sem fyrirtækið vildi reyna að slá ryki í augun á fólki í stað þess að segja satt og rétt frá ákvað Ómar að segja sig úr krísustjórnunarteyminu.

„Það sem við gerðum, vegna þess að við höfum aldrei þurft að „díla“ við krísu af þessari stærðargráðu né um þetta umfangsefni, fengum við til okkar fyrirtæki sem hefur reynslu af krísustjórnun og öðrum verkefnum. Við fengum til okkar sérfræðinga til að hjálpa okkur. Þeir gáfu okkur sín ráð. Ég var áfram í þessu teymi og gaf mín ráð.

Ég fékk það á tilfinninguna í þessari ráðgjöf frá þessu fyrirtæki að þau væru að reyna að búa til einhverja þoku og slá ryk í augun á fólki í staðinn fyrir að segja hlutina eins og þeir eru og leyfa fólki að hafa skoðun á því. Sem er að mínu mati miklu betra að gera, alltaf.

Þannig upplifði ég þetta og á endanum varð þetta til þess að ég sagði mér frá þessu teymi, steig út úr því. Eftir sátu þá ráðgjafarnir og þáverandi formaður. Mín ráð og ráðgjafateymisins voru allt önnur og þeirra ráð komu mér verulega á óvart, ef ég er alveg hreinskilinn.

En þarna fengum við sérfræðinga inn, sem auðvitað vita betur og þegar maður ræður sérfræðinga inn á maður að hlusta á þá og fylgja ráðum þeirra eftir bestu getu. Eftir á að hyggja voru það mistök. Við hefðum ekki átt að gera það. Ég hafði gefið mín ráð, það var ekki hlustað á þau eða farið eftir þeim í neinum tilfellum. Ég ákvað því að mínum tíma væri betur varið fyrir utan teymið,“ útskýrði Ómar

Markvisst reynt að fækka fréttum um KSÍ

Í ritgerðinni greinir Klara frá því að KSÍ hafi markvisst reynt að fækka fréttum um sambandið í kjölfar krísunnar haustið 2021.

„Markvisst síðasta haust [árið 2021 í kjölfar krísunnar] vorum við að reyna að fækka fréttum um okkur. „Reynum að vera ekki í fréttum,“ sögðum við. Við reynum að gefa færri færi á fyrirsögnum,“ sagði Klara.

Bætti hún því við að reynt hafi verið að halda fleiri jákvæðum dæmum á lofti um starfsemi KSÍ og að orðspor sambandsins hafi lagast frá haustinu 2021.

Í maí á síðasta ári var viðbragðsáætlun vegna meintra alvarlegra brota leikmanna og annars starfsfólks sambandsins samþykkt af KSÍ. Í henni felst að fari mál leikmanns eða starfsmanns til ákæruvalds eða samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, stígur viðkomandi til hliðar á meðan.

Á vegum ÍSÍ starfar samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, Sigurbjörg Sigurpálsdóttir.

„Í dag myndum við vísa þessu í okkar verklag og vísa þessu til samskiptaráðgjafa. Málin stoppa ekkert hér, þau fara lóðbeint niður í Skipholtið til hennar,“ sagði Klara um hvernig tekið er á sambærilegum málum í dag.

mbl.is