Ekkert frábært að flytja á hverju ári

Rúnar Alex Rúnarsson fyrir æfingu á Laugardalsvelli í dag.
Rúnar Alex Rúnarsson fyrir æfingu á Laugardalsvelli í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

„Ég er rosalega ánægður með tímabilið og frammistöðu mína í leikjum,“ sagði Rúnar Alex Rúnarsson, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu, um nýafstaðið tímabil með tyrkneska liðinu Alanyaspor, þar sem hann lék að láni frá enska stórliðinu Arsenal.

„Þetta var gott tímabil, það var gott að prófa eitthvað nýtt og komast aðeins út fyrir þægindarammann. Prófa að vera í annarri menningu og öðru landi.

Það gekk vel og ég er ánægður með þetta skref,“ bætti Rúnar Alex við í samtali við mbl.is, skömmu fyrir landsliðsæfingu á Laugardalsvelli í dag.

Hann hefur verið á mála hjá Arsenal frá því í september árið 2020, tvívegis verið lánaður annað og er ekki inni í myndinni hjá Lundúnafélaginu. Spurður hvað taki við á næsta tímabili sagði Rúnar Alex:

„Ég hef svona ákveðnar hugmyndir en það er ekkert ákveðið. Mér finnst ólíklegt að það verði Tyrkland áfram en ég vil ekki loka neinum dyrum.

Ég hef átt samtöl og veit svona nokkurn veginn hvernig landið liggur en lokaniðurstaðan verður ekki komin fyrr en í fyrsta lagi eftir landsleikina.“

Ísland á fyrir höndum tvo landsleiki í undankeppni EM 2024, gegn Slóvakíu 17. júní og Portúgal þremur dögum síðar.

Ólíklegt að það verði lán

Rúnar Alex vill helst ekki fara aftur að láni en veit þó ekki hvort það standi til hjá Arsenal að lána hann út í þriðja sinn eða selja.

„Nei, ég veit það ekki. Ég á núna eitt ár eftir af samningnum mínum og mér finnst ólíklegt að það verði lán. Ég á konu og tvö börn og það að flytja á hverju ári er ekkert frábært.

Ef ég gæti valið myndi ég frekar vilja vita hvar ég er að fara að búa næstu árin, sama hvort það verði á Englandi eða einhvers staðar annars staðar.

Ég held að það sé bara númer eitt hjá okkur að finna einhvern stað sem við vitum að við getum verið á í einhvern smá tíma og náð smá fótfestu og rútínu,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is