Sextán ára hetja Skagamanna

Daníel Ingi Jóhannesson skoraði sigurmarkið.
Daníel Ingi Jóhannesson skoraði sigurmarkið. Ljósmynd/ÍA

ÍA vann sinn annan sigur á leiktíðinni í 1. deild karla í fótbolta er liðið heimsótti nýliða Ægis og fagnaði 1:0-útisigri í kvöld. 

Hinn sextán ára gamli Daníel Ingi Jóhannesson skoraði sigurmark ÍA á 63. mínútu, en hann er yngri bróðir landsliðsmannsins Ísaks Bergmanns Jóhannessonar og er mjög efnilegur.

Með sigrinum fór ÍA upp í sjötta sæti deildarinnar og átta stig. Ægir er sem fyrr á botninum með eitt stig.

Þetta var fyrsta viðureign milli Ægis og ÍA á Íslandsmóti en Ægismenn leika nú í fyrsta skipti í næstefstu deild.

mbl.is