„Þetta er svo sætt“

Aron Pálmarsson skorar annað tveggja marka sinna í leiknum.
Aron Pálmarsson skorar annað tveggja marka sinna í leiknum. Ljósmynd/Szilvia Micheller

„Jú þetta var ógeðslega gaman,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson hlæjandi þegar mbl.is spurði hann hvort hann hefði bara haft nokkuð gaman af því að vinna Ungverja á EM í Búdapest. 

„Þetta er svo sætt. Við spiluðum tvo góða leiki og hefðum þannig séð getað verið búnir að ná því markmiði að komast upp úr riðlinum. En þá spilast þetta þannig að okkur er hent í úrslitaleik gegn heimamönnum fyrir framan 20 þúsund manns. Að klára dæmið var eiginlega ótrúlegt. Það sem við vorum að gera er risastórt.“

Aroni fannst íslensku landsliðsmennirnir vera yfirvegaðir þótt spennan væri á köflum yfirgengileg. „Við vorum bara kúl, hvort sem það var fyrir leik eða í leiknum. Tilfinningin var góð og einhvern veginn fannst manni að við myndum alltaf vinna þennan leik. Það er ógeðslega gaman að vera í þessu liði.“

Ungverjar lögðu mikla áherslu á að halda aftur af Aroni.
Ungverjar lögðu mikla áherslu á að halda aftur af Aroni. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Leikur eins og þessi þar sem mikið er í húfi, er alltaf í járnum, hlýtur bara að vera eitt alls herjar sálarstríð. Þegar maður horfir á leikinn finnst manni eins og hann taki 3-4 klukkutíma. Hver er galdurinn við að landa sigri í svona leik?

„Ég held að þetta hafi jafnvel verið erfiðara fyrir þá. Sóknin var frábær og við þéttum vörnin aðeins í seinni en þeir fundu línumennina oft í fyrri hálfleik. Við vildum fá fleiri skot að utan í seinni því Bjöggi hafði verið í þeim skotum í fyrri hálfleik. Okkur leið aldrei illa og héldum bara áfram að spila sem skilaði góðum skotfærum í sókninni. Spennustigið var vissulega hátt en við höfðum trú á því sem við vorum að gera.“

Aron Pálmarsson kynntur til leiks í kvöld.
Aron Pálmarsson kynntur til leiks í kvöld. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Eru allir mikilvægir landsleikir eins eða eru meiri tilfinningar í spilinu þegar maður hefur búið í viðkomandi landi eins og tilfellið var með Aron í kvöld? Hann bjó í Ungverjalandi í nokkur ár og spilaði með Vészprém. 

„Það gefur manni extra og maður notfæri sér það alveg hiklaust. Maður fær baulið á sig og allt það. Maður notar það bara í jákvæðum tilgangi og ég notaði þetta til að peppa mig fyrir leikinn,“ sagði Aron Pálmarsson ennfremur við mbl.is í MVM Dome í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert