„Króatar voru feikilega öflugir gegn Dönum“

Guðmundur Þ. Guðmundsson og Ágúst Þór Jóhannsson.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og Ágúst Þór Jóhannsson. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Aðstoðarþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson stýrði landsliðsæfingunni í keppnishöllinni í Búdapest i gær. 

Ágúst bendir á að Króatía verðir erfiður andstæðingur á EM í handknattleik í dag. „Króatar eru búnir að fá menn inn og voru feikilega öflugir á móti Dönum. Við skoðuðum auðvitað þann leik og tókum einn léttan fund í hádeginu og tökum annan í kvöld. Við þurfum auðvitað toppframmistöðu. Það er alveg klárt. Króatar geta spilað bæði 6-0- og 5-1-vörn og eru sterkir í hraðaupphlaupum. Við þurfum að vera mjög agaðir í sókninni og ná upp sömu vörn og við höfum verið að spila stóran hluta af þessu móti. Þá getur þetta orðið hörkuleikur en Króata er með heimsklassamenn í öllum stöðum og því verður þetta erfið viðureign,“ sagði Ágúst sem sagði í samtali við mbl.is fyrir leikinn gegn Frakklandi að Viktor Gísli Hallgrímsson og Ágúst Elí Björgvinsson myndu standa sig í fjarveru Björgvins Páls Gústavssonar. Það gekk heldur betur eftir gegn Frökkum. 

„Viktor stóð sig frábærlega og er gríðarlega sterkur markmaður. Það var ljúft að sjá hann. Vörnin var líka frábær allan leikinn. Með voru hrikalega vinnusamir og massífir fyrir framan Viktor. Það gekk vel.“

Íslensku leikmennirnir einbeittir fyrir leikinn gegn Frakklandi.
Íslensku leikmennirnir einbeittir fyrir leikinn gegn Frakklandi. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Hvernig útskýrir Ágúst magnaða frammistöðu íslenska liðsins gegn Frakklandi í ljósi allra þeirra breytinga sem urðu á liðinu? Á þetta að vera hægt þegar menn hafa lítinn sem engan tíma til að bregðast við?

„Ég held að þetta sé nú einn magnaðasti sigur sem íslenskt landslið hefur unnið. Maður gældi svo sem aldrei við þetta en við höfum reynt að einbeita okkur að frammistöðunni og því að undirbúa liðið eins vel og hægt er. Leikáætlunin breytist stundum á milli skimana og það er erfitt að eiga við þetta. Drengirnir stóðu sig frábærlega og sýndu gríðarlegan karakter. Liðsheildin var feikilega öflug,“ sagði Ágúst enn fremur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert