Suárez: Myndi fórna mér aftur fyrir liðið

Luis Suárez skorar fyrir Liverpool gegn Stoke í 8-liða úrslitum …
Luis Suárez skorar fyrir Liverpool gegn Stoke í 8-liða úrslitum bikarsins. Reuters

Luis Suárez, sóknarmaður Liverpool, segir að ef hann þurfi að verja með hendi á marklínu til að koma liðinu í úrslit bikarkeppninnar, eins og hann gerði fyrir Úrúgvæ í átta liða úrslitum HM í Suður-Afríku fyrir tveimur árum, muni hann ekki hika við það. Liverpool mætir grönnunum í Everton í undanúrslitum bikarsins á Wembley klukkan 11.30.

Suárez bjargaði þá marki á umdeildan hátt á lokamínútu gegn Gana í 8-liða úrslitunum. Fékk á sig vítaspyrnu og rautt spjald en Ganamenn klúðruðu spyrnunni og Úrúgvæ komst í undanúrslit.

„Ég fórnaði mér vegna þess að það var svo mikilvægt fyrir Úrúgvæ að komast í undanúrslit. Nú vil ég vinna þennan undanúrslitaleik. Hann verður geysilega erfiður en ég geri allt fyrir liðið. Ef ég neyðist til að stöðva boltann með hendi á síðustu mínútu til að vinna leikinn, þá geri ég það aftur," sagði Suárez í viðtali við götublaðið The Sun.

„Árangur Liverpool skiptir mig meira máli en allt annað, en ég vonast eftir því að þurfa ekki að upplifa svona dramatík aftur," sagði Suárez og vonast eftir því að hann og Andy Carroll verði saman í framlínunni í dag.

„Stjórinn hefur ekki tilkynnt liðið en ef við Andy Carroll spilum saman frammi munum við skapa mikla hættu. Við höfum ekki náð 100 prósent saman í vetur en nú er tækifærið til að breyta því. Andy skoraði sigurmarkið gegn Blackburn á þriðjudag og er ánægður með það. Sá sigur hefur gefið okkur mikinn kraft fyrir nágrannaslaginn," sagði Luis Suárez.

mbl.is