Dóttir Sterlings fyrir aðkasti á Twitter

Raheem Sterling.
Raheem Sterling. AFP

Lögregluyfirvöld á Merseyside á Englandi hafa staðfest að til rannsóknar séu ummæli sem látin hafi verið falla á Twitter um dóttur knattspyrnumannsins Raheems Sterlings, í kjölfarið á atburðarás undanfarinna daga, en hann er á leið frá Liverpool til Manchester City.

Talsmaður lögreglunnar sagði við BBC að orðalagið sem notað hefði verið í tístunum hefði verið hroðalegt.

„Við tökum þetta mjög alvarlega og rannsóknarlögreglumenn okkar í Liverpool eru með þetta í sínum höndum. Fólk sem notar veraldarvefinn til að ofsækja aðra, og fremja glæpsamlegt athæfi eins og einelti eða hatursáróður, má búast við því að verða ákært," sagði talsmaðurinn.

Dóttir Sterlings, Melody Rose, er þriggja ára gömul.

mbl.is