Leikmenn United róa allir í sömu átt

David de Gea, markvörður Manchester United.
David de Gea, markvörður Manchester United. AFP

Spænski markvörðurinn David de Gea vill taka aukna ábyrgð í liði Manchester United. Hann segir slæmt gengi síðustu vikna hafa farið í taugarnar á leikmönnum en sigur liðsins á Swansea í síðustu umferð var sá fyrsti síðan 21. nóvember í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hef verið hér í nokkur ár og því lengur sem þú ert á einum stað, því meiri áhrif og virðingu hlýturðu innan hópsins. Ég vil geta stjórnað mínum varnarmönnum eins og hershöfðingi þannig að þeim líði vel vitandi af mér í markinu,“ sagði de Gea.

Spánverjinn segir að leikmenn hafi þjappað sér saman á erfiðum tímum en liðið tapaði fjórum leikjum í röð í deildinni og féll úr leik í Meistaradeildinni. „Andinn í búningsklefanum er frábær. Við erum mikið saman og róum allir í sömu áttina; til að gera það sem er best fyrir félagið. Við þurfum að halda áfram að bæta okkur og vinna leiki.“

Að hans mati er engin ástæða til að dvelja við slæmt gengi í desember, það sem er liðið er liðið. „Við glímdum við mikið af meiðslum og þá verður erfiðara að vinna leiki. En slíkt gerist í fótboltanum og við verðum bara að halda áfram.“

mbl.is