Liverpool hélt jöfnu

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool. AFP

Liverpool tókst að jafna metin tvisvar og tryggja sér aukaleik á heimavelli gegn D-deildarliðinu Exeter í 3. umferð ensku bikarkeppninni í knattspyrnu í kvöld en lokatölur urðu 2:2.

Liverpool var án allra fastamanna sinna í kvöld, að því undanskildu að Christian Benteke lék í fremstu víglínu.

Tom Nicholls kom Exeter yfir strax á 9. mínútu en Jerome Sinclair jafnaði þremur mínútum síðar fyrir Liverpool. Í blálokin á fyrri hálfleik skoraði Lee Holmes beint úr hornspyrnu og kom Exeter í 2:1.

Brad Smith jafnaði metin fyrir Liverpool, 2:2, þegar 17 mínútur voru til leiksloka og þar við sat. 

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is:

90. LEIK LOKIÐ Jafntefli, 2:2. Liðin verða að mætast á nýjan leik og þá á heimavelli Liverpool. 

73. MARK, 2:2 Loksins tekst leikmönnum Liverpool að jafna metin.  Brad Smith skorar með föstu skoti úr vítateignum eftir að einum varnarmanni Exeter mistókst að hreinsa fyrirgjöf frá markinu. 

45. HÁLFLEIKUR. Leikmenn Exeter ganga með bros á vör til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik. Þeir hafa yfirhöndina sem stendur en allur síðari hálfleikur er eftir. 

45. MARK, 2:1 Leikmenn Exeter eru ekki af baki dottnir. Nú þegar flestir bíða þess að flautað verði til hálfleiks þá taka þeir forystuna á nýjan leik. Að þessu sinni skoraði Lee Holmes við mikinn fögnuð áhorfenda beint úr hornspyrnu. Bogdan markvörður Liverpool var ekki alveg með á nótunum. 

12. MARK, 1:1 Leikmenn Liverpool voru ekki lengi að svara fyrir sig. Jerome Sinclair jafnar metin. 

9. MARK, 1:0. Heimamenn eru óvænt komnir yfir gegn stórliðinu. Ég skal segja ykkur það! Það var enginn annar en Tom Nicholls sem kom liði Exeter á bragðið. 

1. Flautað hefur verið til leiks á St. James' Park í Exeter. 

Exeter: Olejnik, Woodman, Noble, Ribeiro, Holmes, Nicholls, Moore-Taylor, Reid, Nichols, Tillson, Brown. - Varamenn: McAllister, Oakley, Davies, Morrison, Hoskins, Hamon, Grant.

Liverpool: Bogdan, Randall, Enrique, Smith, Ilori, Brannagan, Stewart, Kent, Teixeira, Sinclair, Benteke. - Varamenn: Fulton, Lallana, Lucas, Ojo, Maguire, Chirivella, Masterson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert