Arsenal saknaði Özil á Britannia

Jack Butland ver frá Olivier Giroud í leiknum.
Jack Butland ver frá Olivier Giroud í leiknum. AFP

Stoke City og Arsenal gerðu 0:0 jafntefli á Britannia-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í dag en heimamenn voru nálægt því að stela sigrinum undir lokin.

Arsenal lék án Mesut Özil í dag en hann er að glíma við smávægileg meiðsli. Það sást bersýnilega í leiknum að hans var sárt saknað en Arsenal skapaði lítið í leiknum.

Alex Oxlade-Chamberlain og Olivier Giroud fengu báðir frábær færi til þess að skora fyrir Arsenal í fyrri hálfleik en þeim brást bogalistin. Jack Butland var eins og köttur í markinu hjá Stoke en hann hafði minna að gera í síðari hálfleik.

Petr Cech þurfti þá að æfa vörslurnar en Stoke var grátlega nálægt því að skora oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Stoke fékk þá dauðafæri undir blálokin en þar voru þeir Per Mertesacker og Cech vel á verði.

Lokatölur 0:0. Arsenal fer á toppinn með þessu stigi en liðið er með 44  stig, jafnmörg og Leicester City. Stoke er í 7. sæti með 33 stig.

Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Leik lokið. Markalaust jafntefli á Britannia leikvanginum í Stoke. Heimamenn mun betri í síðari hálfleik og létu gestina hafa fyrir hlutunum. Petr Cech hlýtur að vera maður leiksins, enda átti hann nokkrar vörslur í heimsklassa.

89. STOKE Í DAUÐAFÆRI OG CECH VER!! Stoke fékk hornspyrnu sem leikmaður Arsenal skallaði aftur fyrir sig, boltinn var á leið inn er Mertesacker stangaði boltann burt. Stoke komst þá aftur í færi í teignum en Cech varði meistaralega. Hvað er í gangi??

82. Allt steindautt í augnablikinu. Við bíðum bara eftir marki eins og svo margir aðrir.

66. CECH AFTUR! Hann hættir ekki að verja. Skot rétt fyrir utan teig, sem hann fer. Jonathan Walters var líklegur til að ná frákastinu en rétt missti af því. Komin alvöru spenna í þetta!

56. DAUÐAFÆRI HJÁ STOKE!! Joselu á skot á markið sem Petr Cech ver frábærlega áður en Bojan reynir við frákastið, sem Cech ver í horn. Markverðirnir eiga þennan dag í enska boltanum, það er á kristaltæru.

47. GIROUD MEÐ SKALLA!! Arsenal fékk hornspyrnu sem rataði svona beint á kollinn á Giroud en Butland varði meistaralega frá honum. Butland er sjóðandi heitur í dag!

46. Síðari hálfleikur er kominn af stað.

Hálfleikur: Stoke 0:0 Arsenal

Þetta er svipað og leikurinn gegn Liverpool. Jack Butland er þá væntanlega í hlutverki David De Gea í dag. Hann hefur verið magnaður í búrinu hjá Stoke. Spurning hvort Stoke næli sér í sigurmark undir lokin? Það kemur allt saman í ljós á eftir.

36. Bojan að ógna marki Arsenal. Fær skot rétt fyrir utan teig sem fer rétt framhjá. Ágætis tilraun hjá Spánverjanum.

29. CHAMBERLAIN NÁLÆGT ÞVÍ!! Hann fékk boltann fyrir utan teig og lét vaða. Boltinn fór af manni áður en Jack Butland varði hann að mér sýndist. Frábærlega vel gert.

20. GIROUUD!!! Joel Campbell með frábæra sendingu inn fyrir á Giroud sem náði skoti á markið en Jack Butland gerði frábærlega í að verja þetta.

14. Fremur rólegur leikur til þessa. Það væri óskandi að fá mark til þess að opna þennan leik aðeins.

1. Leikurinn er hafinn.

0. Þetta er allt að fara að hefjast. Mesut Özil er ekki með Arsenal í dag vegna meiðsla, verður því fróðlegt að sjá hvernig sóknarleikurinn hjá Arsenal verður. Hann hefur verið potturinn og pannan í sóknarleik liðsins á þessari leiktíð.

0. Byrjunarliðin má sjá hér fyrir neðan.

Glen Johnson og Alex Oxlade-Chamberlain eigast við í leiknum.
Glen Johnson og Alex Oxlade-Chamberlain eigast við í leiknum. AFP
mbl.is