Vissi að markið myndi koma

Jesse Lingard fagnar marki sínu í kvöld.
Jesse Lingard fagnar marki sínu í kvöld. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United þurfti að bíða í 83 mínútur eftir fyrsta marki sinna manna í bikarleiknum gegn B-deildarliði Derby á Old Trafford í kvöld þar sem United hafði að lokum betur í, 2:0.

„Mér leið þannig að við værum nálægt því að skora og við hættum aldrei að reyna. En þegar rúmar 80 mínútur eru komnar á klukkuna og ekkert mark er komið þá óttast maður að þurfa að spila annan leik.

En liðið hélt áfram svo ég vissi að markið myndi koma. Þetta var glæsilegt mark hjá Jesse Lingard upp í hornið og það er blússandi sjálfstraust hjá honum þessa dagana og hlutirnir eru að ganga upp hjá honum. Hann er frábær atvinnumaður og er magnaður í búningsklefanum. Lið Derby varðist vel og markvörður þeirra Scott Carson lék virkilega vel,“ sagði Mourinho eftir sigur sinna manna.

mbl.is