Liverpool á allt hrós skilið

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City.
Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City. AFP

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, mátti sætta sig við tap sinna manna í fyrsta sinn á leiktíðinni á Englandi í dag þegar Liverpool hafði betur gegn toppliðinu á Anfield, 4:3, í hreint út sagt mögnuðum leik.

„Hamingjuóskir til Liverpool með sigurinn. Leikurinn var í okkar höndum í stöðunni 1:1 en við nýttum færin okkar ekki vel og skyndilega var staðan orðin 4:1. Staðreyndin er sú að við töpuðum leiknum en Liverpool á allt hrós skilið. Við vitum hversu erfitt er að spila við lið Jürgen Klopp. Þeir voru mjög áræðnir á heimavelli sínum,“ sagði Guardiola en þrátt fyrir tapið er Manchester City með 15 stiga forskot á toppnum en Manchester United getur minnkað það niður í 12 stig með sigri gegn Stoke annað kvöld.

„Þrátt fyrir að við séum með góða forystu er þetta alls ekki búið. Við þurfum að vinna marga leiki til víðbótar til að verða meistarar og nú byrjum við undirbúninginn fyrir leikinn gegn Newcastle um næstu helgi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka