Karius fær traustið hjá Klopp

Jürgen Klopp og Loris Karius.
Jürgen Klopp og Loris Karius. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, staðfesti í dag að Þjóðverjinn Loris Karius mundi verja mark liðsins gegn Porto í Meistaradeildinni annað kvöld.

„Loris mun byrja. Fyrir alla markverði gildir það sama. Sjálfstraust. Frammistaða hans í leiknum á móti Southampton var mjög mikilvæg. Hann átti nokkrar góðar og mikilvægar markvörslur og frammistaða hans var mjög góð,“ segir Klopp á vef Liverpool.

Framan af tímabilinu skipti Klopp markvarðarstöðunni á milli Karius og Simon Mignolet en síðustu vikurnar hefur Þjóðverjinn fengið traustið.

Mignolet lék síðast í deildinni gegn Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum hans í Burnley á nýársdag þar sem Jóhann skoraði framhjá Belganum.

Mignolet spilaði svo bikarleikinn á móti WBA á Anfield þar sem Liverpool tapaði. Ekki var góður dagur hjá Mignolet í markinu í þeim leik og líklegt er að hann yfirgefi Liverpool í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert