Fleiri í baráttuna um Martial

Anthony Martial í leik Manchester United og WBA á Old …
Anthony Martial í leik Manchester United og WBA á Old Trafford í gær. AFP

Nýkrýndir Þýskalandsmeistarar Bayern München hafa blandað sér í baráttuna um fá franska sóknarmanninn Anthony Martial frá Manchester United í sumar.

Martial er ekki sáttur við stöðu sína hjá United undir stjórn José Mourinho og er sagður vilja yfirgefa Old Trafford. Hann hefur mátt sætta sig við að verma varamannabekkinn mikið á leiktíðinni og enn meira eftir að Sílemaðurinn Alexis Sánchez kom til liðsins frá Arsenal í janúar.

Fregnir frá Ítalíu herma að forráðamenn Bayern München séu mjög spenntir fyrir því að fá Martial í sínar raðir en Ítalíumeistarar Juventus eru einnig með leikmanninn í sigtinu. Martial er 22 ára gamall og samningsbundinn Manchester United til ársins 2019 en hann kom til liðsins frá Monaco árið 2015.

Arsenal fylgist einnig með gangi mála hjá Martial en líklegt er að United skelli 50 milljóna evra verðmiða á Frakkann, sem hefur skorað 9 mörk í þeim 27 leikjum sem hann hefur komið við sögu í, í deildinni á tímabilinu, en hann hefur verið í byrjunarliðinu í 16 þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert