Wenger segist ekki hafa fengið að ráða

Arsene Wenger.
Arsene Wenger. AFP

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, segir að hann hafi ekki komið nálægt þeirri ákvörðun að tilkynna það í síðustu viku að hann myndi hætta með liðið að tímabili loknu eftir 22 ára starf.

Wenger á enn eitt ár eftir af samningi sínum við Arsenal, en á föstudag barst tilkynning frá félaginu þess efnis að Wenger myndi hætta eftir tímabilið. Hann segist sjálfur aðeins einbeita sér að störfum hvers dags og spái lítið í framhaldinu.

Fyrrum fyrirliði Arsenal, Patrick Viera, hefur verið orðaður við starf knattspyrnustjóra Arsenal eins og Luis Enrique sem áður stýrði Barcelona. Wenger talaði vel um þá báða, en sagðist ekki vilja hafa áhrif á það hver myndi taka við af honum.

„Er til hin fullkomna kveðjustund? Ég veit það ekki, ég vil bara gera eins vel og ég get. Þessir leikmenn sem ég eru með eiga skilið eitthvað einstakt og minn stærsti draumur núna væri að afreka eitthvað stórt með þeim,“ sagði Wenger, en Arsenal er í eldlínunni í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert