West Ham í viðræðum vegna Anderson

Felipe Anderson gæti verið á leið í ensku úrvalsdeildina.
Felipe Anderson gæti verið á leið í ensku úrvalsdeildina. AFP

Enska knattspyrnufélagið West Ham hefur áhuga á Felipe Anderson, leikmanni Lazio, og hefur hafið viðræður við ítalska félagið um kaup sín á leikmanninum en það er Sky Sports sem greinir frá þessu. Anderson hefur spilað með Lazio frá árinu 2013 en hann hefur reglulega verið orðaður við lið í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár.

Þessi 25 ára gamli sóknarmaður kom við sögu í 21 leik með Lazio í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð þar sem hann skoraði 4 mörk og lagði upp önnur 7. Lazio vill fá í kringum 50 milljónir evra fyrir leikmanninn en Sky Sports greinir frá því að það sé talsvert hærra en West Ham er tilbúið að borga.

mbl.is