Chelsea og Liverpool áhugasöm um Cillessen

Jasper Cillessen gæti verið á förum í ensku úrvalsdeildina.
Jasper Cillessen gæti verið á förum í ensku úrvalsdeildina. AFP

Ensku knattspyrnufélögin Chelsea og Liverpool hafa bæði áhuga á Jasper Cillessen, markmanni Barcelona en það er Mail sem greinir frá þessu. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool ætlar sér að fá nýjan markmann á Anfield í sumar en Simon Mignolet er að öllum líkindum á förum og þá gerði Loris Karius sig sekan um skelfileg mistök í úrslitum Meistaradeildarinnar í lok maí sem kostuðu tvö mörk.

Thibaut Courtois, markmaður Chelsea hefur ekki viljað framlengja núverandi samning sinn við félagið en hann rennur út næsta sumar. Chelsea íhugar því að selja hann í sumar, á meðan þeir fá eitthvað fyrir hann en hann hefur verið orðaður við bæði Real Madrid og Bayern München að undanförnu.

Cillessen hefur verið varamarkmaður hjá Barcelona síðan hann kom til félagsins frá Ajax árið 2016. Hann spilaði 11 leiki með Börsungum á þessari leiktíð en Marc-André ter Stegen er markmaður númer eitt hjá Barcelona.

mbl.is