„Geri alltaf mitt besta, sama hvað“

Paul Pogba í leiknum í gærkvöldi.
Paul Pogba í leiknum í gærkvöldi. AFP

Knattspyrnumaðurinn Paul Pogba kom Manchester United á bragðið í 2:1-sigri á Leicester í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar í gær er hann skoraði úr vítaspyrnu strax á þriðju mínútu leiksins. Framtíð Frakkans hefur verið mikið til umræðu í fjölmiðlum í sumar en hann svaraði þeim sögusögnum fullum hálsi að leik loknum.

Pogba hefur verið sagður vilja yfirgefa United í sumar og jafnvel var talið að spænski risinn Barcelona hefði boðið í heimsmeistarann nýkrýnda. Hann er aðeins nýkominn til baka til liðsins eftir að hafa farið alla leið á heimsmeistaramótinu í Rússlandi í sumar með Frökkum en var mættur á Old Trafford í gær og bar fyrirliðabandið fyrir United.

„Að sjálfsögðu gerir það mig stoltan að bera fyrirliðabandið hjá stóru félagi eins og Manchester United,“ sagði Pogba við fjölmiðla eftir leik. „Eins og ég hef alltaf sagt, ég geri alltaf mitt besta fyrir stuðningmennina, liðsfélaga mína og fólkið sem treystir mér, sama hvað er í gangi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert