Sannfærðir um að De Gea skrifi undir

David de Gea, markvörður Manchester United.
David de Gea, markvörður Manchester United. AFP

Forráðamenn Manchester United eru sannfærðir um að markvörðurinn David de Gea skrifi undir nýjan langtímasamning við félagið.

Spánverjinn á eitt ár eftir af samningi sínum á Old Trafford en United getur lengt hann um eitt aukaár. Félagið vill þó hefja nýjar samningsviðræður við 27 ára landsliðsmarkvörðinn og hefur samningsstaða þeirra styrkst eftir að stórlið Real Madrid á Spáni keypti Thibaut Courtois frá Chelsea í síðustu viku.

De Gea var sífellt orðaður við Real frá árinu 2015 en seinagangur í faxvél varð til þess að pappírar vegna félagsskipta hans til Spánar voru einhverjum mínútum of seinir í gegn það sumarið. Örfáum vikum síðar skrifaði hann undir nýjan samning hjá United.

Í ljósi þess að Real Madrid hefur nú keypt Belgann Courtois ætti fátt að standa í vegi fyrir að De Gea skrifi undir hjá enska félaginu en hann er sagður ánægður á Old Trafford. Hann gekk til liðs við United árið 2011 og hefur spilað alls 316 leiki fyrir félagið. Þá hefur hann verið valinn í lið ársins á Englandi fimm sinnum, þar af síðustu fjögur ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert