Átti ekki að bregðast svona við

Marcus Rashford skallar Phil Bardsley í andlitið.
Marcus Rashford skallar Phil Bardsley í andlitið. AFP

Marcus Rashford, sóknarmaður Manchester United, hefur beðist afsökunar á hegðun sinni í leiknum gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gær.

Rashford missti stjórn á skapi sínu og fékk að líta rauða spjaldið eftir viðskipti við Phil Bardsley en Rashford var þá nýkominn inn á sem varamaður. Rashford brást illur við eftir að Bardsley sparkaði í hann og svaraði með því að stanga Bardsley.

„Tilfinningarnar tóku völdin og ég átti ekki að bregðast svona við. Ég bið alla hjá félaginu og stuðningsmenn afsökunar,“ segir Rashford.

Rashford er þar með kominn í þriggja leikja bann. Hann missir af deildarleikjunum á móti Watford og Wolves og af leiknum gegn Derby í ensku deildabikarkeppninni.

mbl.is