Belgum færð „óheillagjöf“

Karl H. Hillers, formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi, færir Eden Hazard ...
Karl H. Hillers, formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi, færir Eden Hazard bókina Lost in Iceland.

Chelsea-klúbburinn á Íslandi nýtti tækifærið vegna komu belgíska karlalandsliðsins í knattspyrnu til landsins og færði nokkrum leikmanna liðsins þakklætisvott fyrir þeirra framlag sem leikmenn Chelsea í gegnum tíðina.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Chelsea-klúbbnum. Þar segir að þeim Eden Hazard og Michy Batshuayi hafi verið færð bókin Lost in Iceland eins og hefð sé fyrir þegar leikmenn Chelsea, fyrrverandi eða núverandi, komi til Íslands með landsliðum sínum. Mun Hazard hafa haft góðan húmor fyrir bókartitlinum og beðið fyrir kveðju til stuðningsmanna Chelsea á Íslandi. Í tilkynningunni segir að ætlunin hafi einnig verið að færa Thibaut Courtois, Romelu Lukaku og Thorgan Hazard gjöf, en það hafi ekki gengið eftir.

Chelsea-klúbburinn rifjar svo upp að í gegnum tíðina hafi bókagjafir klúbbsins virst hafa góð áhrif fyrir íslenska landsliðið. Petr Cech fékk gjöf fyrir tapið með Tékkum sumarið 2015 og Arjen Robben og fleiri úr hollenska landsliðinu fengu einnig gjöf áður en þeir töpuðu fyrir Íslandi haustið 2014.

Leikur Íslands og Belgíu hefst kl. 18.45 í kvöld á Laugardalsvelli.

Michy Batshuay og Karl H. Hillers, formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi, ...
Michy Batshuay og Karl H. Hillers, formaður Chelsea-klúbbsins á Íslandi, fara yfir leik dagsins.
mbl.is