Mun taka tíma að ná fram sínu besta

Naby Keita.
Naby Keita. AFP

Naby Keita, sem hóf sinn feril með Liverpool í sumar, segir að það taki tíma að réttlæta það verð sem Liverpool greiddi fyrir sig en Liverpool pungaði út 52 milljónum punda þegar það fékk hann frá þýska liðinu Leipzig.

Keita, sem er 23 ára gamall landsliðsmaður frá Gíneu, segir í samtali við tímarit Liverpool að það sé eðlilegt að það taki tíma að aðlagast ensku úrvalsdeildinni eftir að hafa spilað í þýsku 1. deildinni.

„Ýmsir hafa sagt mér að fyrir marga útlendinga sem koma til að spila í ensku úrvalsdeildinni taki það tíma að komast inn í hlutina. Það getur verið mjög erfitt að spila í ensku úrvalsdeildinni en ég hef mjög mikla hvatningu að spila hér, ekki bara fyrir mig sjálfan og liðsfélagana heldur fyrir félagið.

Allir í kringum mig hafa veitt mér mikinn stuðning svo ég mun svo sannarlega gera allt sem ég get til að ná að aðlagast eins fljótt og mögulegt er,“ segir Keita.

Keita var varamaður í síðasta leik Liverpool í deildinni sem var gegn Leicester en þykir líklegur til að verða í byrjunarliðinu þegar Liverpool sækir Tottenham heim á Wembley í hádeginu á laugardaginn.

Liverpool hefur unnið alla fjóra leiki sína í deildinni eins og Chelsea og Watford.

mbl.is