Vonaði að hann fengi högg frá Íslendingum

Eden Hazard reyndist Íslendingum erfiður í Laugardalnum enda einn besti ...
Eden Hazard reyndist Íslendingum erfiður í Laugardalnum enda einn besti leikmaður heims í dag. mbl.is/Eggert

Knattspyrnustjóri Arons Einars Gunnarssonar hjá Cardiff, Neil Warnock, er með sérstakan vara á gagnvart tveimur leikmanna Chelsea fyrir leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á morgun.

Um er að ræða Brasilíumanninn Willian og Belgann Eden Hazard sem lék einmitt síðast á Laugardalsvelli á þriðjudag í 3:0-sigri á Íslendingum.

„Ég var að vona að Barcelona yrði búið að kaupa Willian og að Hazard færi til Real Madrid í sumar,“ sagði Warnock léttur í bragði við Evening Standard, en Hazard var orðaður við Real í sumar og Chelsea hafnaði tilboðum Barcelona í Willian.

Þetta eru svo frábærir leikmenn. Hazard? Fólk reynir að sparka í hann en hann elskar það bara. Hann vill bara spila áfram. Ég elska hugarfarið hans. Ég get vel skilið að Chelsea skyldi halda honum. Hann er lykilmaður í því sem þeir eru að gera. Hvernig á að stoppa hann? Það má Guð vita. Ég var að vona að hann fengi nokkur högg frá Íslendingum í vikunni, sagði Warnock léttur.

Í alvöru talað þá er það nú ekki eitthvað sem við reynum að gera. Við erum hafðir fyrir rangri sök. Við vorum gagnrýndir fyrir leikinn við Manchester City - vinstri bakvörðurinn okkar, Joe Bennett, tæklaði þá Leroy Sane. Fólk gerði sér svo mikinn mat úr þessu að halda hefði mátt að við værum einhver villidýr, sagði Warnock og bætti við:

Ástæðan fyrir því að oft er brotið á Hazard er að hann er svo fljótur, svo góður og með svo góðar brellur. Stundum fara andstæðingarnir of seint í hann en það er bara vegna þess að þeir eru ekki í sama gæðaflokki og hann.

Aron Einar Gunnarsson hefur ekkert leikið með Cardiff á leiktíðinni né með íslenska landsliðinu í síðustu leikjum en hann er að koma sér af stað eftir meiðsli.

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff.
Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff. AFP
mbl.is