Dean Smith tekur við Aston Villa

Dean Smith er nýr stjóri Aston Villa.
Dean Smith er nýr stjóri Aston Villa. Ljósmynd/@'Aston Villa

Dean Smith hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Aston Villa í ensku B-deildinni en þetta staðfesti félagið á Twitter-síðu sinni í kvöld. Smith tekur við liðinu af Steve Bruce sem var látinn taka pokann sinn á dögunum.

John Terry, fyrrverandi fyrirliði Chelsea, verður aðstoðarmaður hans en Terry þekkir vel til hjá félaginu eftir að hafa spilað með Aston Villa í ensku B-deildinni á síðustu leiktíð en Terry lagði knattspyrnuskóna á hilluna á dögunum eftir afar farsælan feril.

Smith hefur undanfarin þrjú ár stýrt liði Brentford en þar áður þjálfaði hann Walsall. Jesus Garcia Pitarch var ráðinn yfirmaður íþróttamála á sama tíma en hann lék meðal annars með Valencia og Villarreal sem leikmaður. 

Birkir Bjarnason er samningsbundinn Aston Villa sem hefur ekki farið vel af stað í ensku B-deildinni á þessari leiktíð og er liðið í fimmtánda sæti deildarinnar með 15 stig eftir fyrstu tólf umferðir deildarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert