Ætli ég hafi ekki verið drukkinn?

Virgil van Dijk gæti hafa farið til Crystal Palace þegar …
Virgil van Dijk gæti hafa farið til Crystal Palace þegar Neil Warnock stýrði liðinu á sínum tíma, samkvæmt því sem Warnock sagði í dag. AFP

Neil Warnock, knattspyrnustjóri Cardiff, virðist ætla að tefla Aroni Einari Gunnarssyni fram í leiknum við Liverpool á Anfield á morgun í ensku úrvalsdeildinni.

Warnock sagðist á blaðamannafundi í dag afar ánægður með Akureyringinn og það væri mikið gleðiefni ef Aron gæti spilað 65-70 mínútur á morgun. Aron lék sinn fyrsta leik á tímabilinu í 4:2-sigri á Fulham um síðustu helgi, fyrsta sigri Cardiff á leiktíðinni.

Warnock hrósaði liði Liverpool í hástert og lýsti sóknartríói liðsins sem því besta í heiminum í dag. Þá var hann einnig spurður út í ummæli sín frá því í janúar, eftir að Liverpool gerði Virgil van Dijk að dýrasta miðverði heims með því að kaupa hann á 75 milljónir punda, en Warnock sagði þá Sol Bamba, miðvörð Cardiff, betri varnarmann.

Bauðst að kaupa Van Dijk á sex milljónir punda

„Ætli ég hafi ekki verið drukkinn, ef ég á að vera hreinskilinn,“ sagði Warnock glettinn, en Van Dijk hefur þótt leika afskaplega vel með Liverpool. „Það sem ég átti við var að ef Van Dijk væri í okkar liði þá myndi fólk sjá hvað hann er góður varnarmaður. Hann þarf ekki að verjast svo mikið í Liverpool-liðinu því það er venjulega á vallarhelmingi andstæðinganna,“ sagði Warnock.

„Ég tel að liðið hafi bætt sig enn frekar með leikmönnunum sem hafa komið inn. Ég er hæstánægður með það að Van Dijk sé að spila eins og hann hefur verið að gera, því ég held að við hefðum getað keypt hann til [Crystal] Palace fyrir sex milljónir punda en yfirnjósnarinn minn sagði að hann væri of hægur. Ég held að hann sé samt enn í starfi! Þetta sýnir bara hvernig skoðanir geta verið,“ sagði Warnock.

Neil Warnock getur verið ansi léttur í bragði.
Neil Warnock getur verið ansi léttur í bragði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert