Jafnt hjá United og Arsenal

Jesse Lingard jafnaði metin í 2:2, rétt eftir að Arsenal …
Jesse Lingard jafnaði metin í 2:2, rétt eftir að Arsenal komst yfir. AFP

Manchester United og Arsenal gerðu 2:2-jafntefli á Old Trafford í kvöld í 15. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Tottenham vann 3:1-sigur á Southampton.

Arsenal komst tvisvar yfir í leiknum en hélt forystunni mjög skammt í bæði skiptin. Shkodran Mustafi kom Arsenal í 1:0 um miðjan fyrri hálfleik með skalla sem David de Gea var klaufi að verja ekki. Anthony Martial jafnaði metin fimm mínútum síðar með skoti af stuttu færi, eftir sendingu Ander Herrera.

Alexandre Lacazette kom Arsenal í 2:1 eftir að hafa komið inn á sem varamaður, en hann fékk boltann á silfurfati frá Marcos Rojo sem mættur var í byrjunarlið United eftir meiðsli. Jesse Lingard náði hins vegar að jafna metin strax í kjölfarið, eftir að United tók miðjuna.

Arsenal var nær því að skora sigurmark og Pierre-Emerick Aubameyang fékk til þess dauðafæri en De Gea varði frá honum.

Arsenal er nú með 31 stig líkt og Chelsea, sem er í 4. sæti með betri markatölu þrátt fyrir 2:1-tap gegn Wolves í kvöld. United er með 23 stig í 8. sæti, jafnt Everton og Bournemouth að stigum en með verri markatölu.

Tottenham er með 33 stig í 3. sæti, átta stigum á eftir toppliði Manchester City, eftir öruggan 3:1-sigur á Southampton.

Leikir kl. 20:
Man. Utd - Arsenal, 2:2
(Anthony Martial 31., Jesse Lingard 69. - Shkodran Mustafi 26., Alexandre Lacazette 68.)
Tottenham - Southampton, 3:1
(Harry Kane 9., Lucas Moura 51., Heung-min Son 55. - Charlie Austin 90.)

Man. Utd 2:2 Arsenal opna loka
90. mín. Héctor Bellerin (Arsenal) á skot sem er varið Góð sókn hjá Arsenal og fínt skot en De Gea ver til hliðar. Þar er Mkhitaryan sem skorar með föstu skoti á lofti, en hann er réttilega dæmdur rangstæður.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert